Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Jólabjór, hvað er það?

Sérstakir jólabjórar hafa orðið sífellt meira áberandi undanfarin ár. Nú er að finna meira úrval af sérstökum jólabjórum í Vínbúðunum en nokkru sinni fyrr. Áhuginn er mikill og stundum finnst okkur Vínbúðarstarfsfólkinu verslunarmannahelgin varla liðin þegar viðskiptavinir byrja að spyrja um jólabjórinn!
Flestir framleiðendur nota meira ristað malt í bjórframleiðsluna fyrir jólahátíðina. Hinn hefðbundni jólabjór er því dekkri á litinn en klassíski lagerbjórinn.  Má segja að flestir þessara bjóra standi hinum þekktu Classic bjórum næst.

Einnig eru í boði margskonar forvitnilegir og verulega öðruvísi jólabjórar, en allra hörðustu bjóráhugamenn landsins hafa mestan áhuga fyrir slíkum bjórum.  Það er þá mikið kryddaður og bragðsterkur bjór, sem oftar en ekki er hlaðinn margskonar bragðtegundum sem almenningur tengir við jólahaldið.

En hvernig hófst þetta allt saman?  Til eru frásagnir frá víkingatímanum um að norrænir víkingar hafi bruggað sérstaklega bragðmikið og sterkt öl til þess að fagna sólstöðum. Það var auðvitað ærið tilefni til þess að gleðjast, þegar daginn fór að lengja á ný. Það er því ekkert nýtt að framleitt sé sérstakt hátíðaöl að vetri til og eðlilegt er að það sé kraftmikið og gefi einhvern hita í kroppinn.  

Hákon konungur setti fyrr á öldum lög í Noregi sem kváðu á um að öll heimili í landinu skyldu brugga lágmarksmagn af öli til þess að fagna jólum.  Væri ekki farið að lögum og ölið bruggað skyldi því heimili hegnt. Refsingin gat verið í formi peningasektar, en gat einnig þýtt að heimilið eða húseignir yrðu boðnar upp.  
Það er síðan ekki fyrr en í kringum aldamótin 1900 sem að jólabjórinn, sem við nú þekkjum, kom fyrst á markað. Löndin í Skandinavíu voru fyrst til þess að byggja upp þessa jólabjórahefð af alvöru.  Enn eru það frændur vorir í Danmörku sem gera mikið út á jólabjórinn og þá helst framleiðandinn Tuborg, en að sjálfsögðu framleiða flestir aðrir bjórframleiðendur í Danmörku einhverskonar útgáfu af jólabjór.  Norður- Evrópa og Bretland fylgdu í kjölfarið og núna er þetta orðin alger della í Bandaríkjunum. Enginn veit hvert þetta mun leiða, en það er nokkuð víst að framleiðendur hafa gaman af þessu og ef markaðurinn er móttækilegur þá er sjálfsagt að uppfylla kröfur hans.

Gissur Kristinsson
vínráðgjafi
Gissur Kristinsson vínráðgjafi