Vín frá Nýja-Sjálandi eru aðeins smábrot af allri vínframleiðslu heimsins. Þrátt fyrir smæð sína hefur þeim tekist að stilla sér upp með þeim bestu hvað gæði varðar.
Það eru ekki margir áratugir frá því að Sauvignon Blanc var fyrst gróðursett í Marlborough, þá grunaði menn ekki að nýsjálensk vín úr þessari þrúgu ættu eftir að verða þekkt um allan heim. Árið 1990 var Sauvignon Blanc útnefnt flaggskip nýsjálenskra vína. Þrúgan, sem er mest ræktaða þrúgan á Nýja-Sjálandi, er orðin nokkurs konar staðalímynd fyrir Sauvignon Blanc.
Nýsjálenskur Sauvignon Blanc er ilmríkur og hreinlega ræðst á lyktarskynfærin með papríku- og stikilsberjakeim, ásamt ástaraldini og suðrænum ávexti. Einnig má finna nýslegið gras, tómatplöntu, rautt greip og límónu. Í sumum vínum þróast aspaskeimur við þroskun á flösku.
Hvítvín úr Chardonnay, Riesling og Pinot Gris standast fyllilega væntingar og henta eins og Sauvignon Blanc með fjölbreyttum mat.
Það má segja að rauða þrúgan Pinot Noir hafi, þrátt fyrir að vera upprunnin í Bourgogne, fundið sér sitt annað heimili á Nýja-Sjálandi, en svalt loftslagið hentar mjög vel fyrir Pinot Noir og hefur víngerðarmönnum þar tekist að draga fram glæsileika gamla heimsins ásamt kröftugum ávexti frá nýja heiminum.
Önnur rauðvín eru úr þrúgunum Syrah, Merlot og Cabernet Sauvignon/Merlot blöndu.
Flest nýsjálensk vín sem eru í sölu í Vínbúðunum koma frá Marlborough. Maori fólkið kallaði Marlborough Kei puta te Wairau, eða staðinn með gatinu í skýjunum, sem vísar til þess hve sólríkt og úrkomulítið svæðið er.
Eldamennskan í Nýja-Sjálandi virðist vera sambland frá Evrópu og Asíu. Nýsjálenskt lambakjöt er heimsþekkt og svo er kræklingur og annar skelfiskur gjarnan á borðum. Hefðbundin Maori matreiðsla fer fram þannig að grafin er stór hola, í hana eru svo settir steinar sem hitaðir eru með eldi og maturinn eldaður þar í.
Með því að smella á linkinn getið þið séð úrvalið í Vínbúðunum af vínum frá Nýja-Sjálandi.
Páll Sigurðsson
vínráðgjafi