Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Októberfest

Þrjár vikur. Allt að sjö milljónir manna. Fimm hundruð þúsund kjúklingar, hundrað tuttugu og fimm þúsund pylsur og síðast en ekki síst, átta milljón lítrar af bjór.
Svona lítur tölfræðin út fyrir okóberfest sem haldin er á hverju ári í Theresienwiese í Munchen. Milljónir manna, um sextíu prósent heimamenn og úr næsta nágrenni, borða, dansa og skemmta sér til þess að fagna brúðkaupi krónprinsins Lúðvíks frá Bavaria, sem síðar varð konungurinn Lúðvík I, og prinsessunnar Teresu af Saxony-Hildburghausen sem átti sér stað 12. október 1810. 

Fyrst um sinn voru kappreiðar aðal skemmtiatriðið fyrir almúgann, en það breyttist fljótt og strax árið 1814 var búið að reisa fjöldan allan af bjórbásum þar sem hægt var að gæða sér á hinum gullnu veigum úr hálfs lítra krúsum. Smám saman var kappreiðunum hætt og fleiri bjórbásum bætt við til þess að halda gestum í hátíðlegu skapi.
En hver er hinn eiginlegi októberfestbjórstíll? Aðeins 6 brugghús í Munchen mega kalla bjórana sína "Oktoberfestbier" og selja bjórana sína á hátíðinni, og þeir eru vissulega bruggaðir í vissum stíl, sem mætti kenna við Marzen stílinn.  

Fyrir um 500 árum síðan áttu bruggarar í Bavaria í mestu vandræðum með að stjórna gæðum á bjórnum þeirra yfir sumarmánuðina.  Með aukinni reynslu komust þeir þó að því að bjórar sem bruggaðir voru frá sirka október til byrjun mars voru hreinir og ferskir, því þá varð hitastigið nægjanlega kalt til þess að koma í veg fyrir að bakteríur og aðrar örverur gætu skemmt og súrað bjórinn. Til þess að halda þeim ferskum yfir sumarmánuðina tóku bruggarar upp á því að geyma þá í tunnum í köldum kjöllurum og hellum. Kom þá í ljós að með því að láta bjórinn þroskast í allar þessar vikur varð bjórinn betri, mýkri og hafði meira jafnvægi.  Marzen bjórar eru oft aðeins hærri í áfengi en aðrir venjulegir lagerbjórar, hafa þéttan, næstum sætkenndan maltgrunn, gullnir til rafgullnir að lit, hafa traustan humlaprófíl og flott jafnvægi.
Skál!


Gísli Guðmundsson vínráðgjafiGísli Guðmundsson
vínráðgjafi