Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Berjalíkjörar

Berjasprettan hefur verið afar góð og svigna bæði rifsberja- og sólberjarunnar undan öllum berjunum þetta haustið. Ljúffengt er að útbúa sultur úr uppskerunni, en einnig getur verið gaman að búa til sinn eiginn líkjör til að bjóða upp á á aðventunni. Það eina sem þarf til eru berin, sykur, vodki og biðlund fram að jólum!


RifsberjasnapsRifsberjasnaps 

500 ml vodka
200 g rifsber, hreinsuð og án stilka
100 g sykur

Setjið berin og sykurinn í hreina 1l krukku og merjið þau aðeins, hellið síðan vodka saman við. Lokið krukkunni og geymið á svölum og dimmum stað í alla vega tvær vikur, hristið upp í krukkunni daglega. Eftir tvær vikur er hægt að athuga hvort vodkað hefur dregið nægjanlegt bragð úr berjunum. Þegar bragðið er orðið eins og þú vilt hafa það, þarf að sigta berin frá í gegnum grisju til að fá drykkinn tæran. Það getur þurft að sía tvisvar eða nota kaffi filter í seinna skiptið. Að því loknu er rifsberjasnapsinn settur á flösku og tilbúinn til notkunar. 


SólberjalíkjörSólberjalíkjör

Vodka
Sólber, hreinsuð og án stilka
Sykur

Fyllið hreina glerflösku af sólberjum. Hellið því næst eins miklum sykri og þið getið ofan í flöskuna og hristið vel. Fyllið að lokum flöskuna af vodka og athugið að flaskan sé vandlega lokuð. Hristið flöskuna daglega fram að aðventu, til að hráefnið blandist vel. Í desemberbyrjun er best að sigta berin frá með grisju og hella vökvanum á fallega flösku. Njótið vel!

 

Páll Sigurðsson vínráðgjafiPáll Sigurðsson
vínráðgjafi