Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Napa dalurinn

Fjallstindarnir stinga höfðinu upp úr þokunni og eftir því sem sólin rís hærra yfir sjóndeildarhringnum hopar þokan upp úr dalnum. Inn á milli Mayacama fjallgarðsins og Vaca fjallanna kúrir Napa dalurinn, eitt þekktasta víngerðarsvæði Kaliforníu.


Um 4% vína gerð í Kaliforníu koma frá Napa dalnum þar sem víngerðir eru að öllu jöfnu litlar og um 95% eru í eigu fjölskyldu. Víngarðana má finna í dalsbotninum, upp í hlíðunum og á fjallstoppunum. Þeir eru niðri við sjávarmál og allt upp í 800 metra yfir sjávarmáli. Jarðvegurinn er fjölbreyttur en um 50% jarðvegstegunda sem finna má í heiminum fyrirfinnast í víngörðum Napa dals. Lega dalsins gerir það einnig að verkum að hitastig er breytilegt, allt eftir því hvort víngarðar liggja í suðri, nálægt San Francisco flóa, eða í norðri uppi í fjöllunum. Endilangur dalurinn er þó ekki fleiri en 64 kílómetrar og er hann sumsstaðar rétt undir tveimur kílómetrum að breidd. Napa dalurinn er því þekktur sem eitt minnsta en jafnframt eitt fjölbreyttasta og ákjósanlegasta vínræktarsvæði land- og veðurfræðilega séð.


Fyrirferðamesta ræktaða þrúgan í Napa dalnum er Cabernet Sauvignon, er um 40% af ræktuðum þrúgum, og eru kraftmikil og þétt en þó mjúk vínin einkennandi fyrir svæðið. Einnig er þar að finna vín úr ýmsum öðrum þrúgum eins og Zinfandel, til dæmis frá gömlum vínvið sem skilar af sér öðruvísi vínum en venjast má frá Kaliforníu. Þau eru flóknari í bragðeinkennum og ekki eins sultuð. Af hvítu þrúgunum stendur Chardonnay upp úr, oft og tíðum í eikaðari kantinum þó framleiðendur hafi fjarlægst þann stíl í auknum mæli síðastliðin ár. Auk þessara tveggja mikið ræktuðu þrúgna má finna Cabernet Franc, Merlot, Pinot Noir, Sauvignon Blanc, fyrrnefnda Zinfandel, Petit Verdot, Malbec, Syrah/Shiraz, Petite Sirah og Pinot Gris/Pinot Grigio, svo eitthvað sé nefnt. Einnig má finna aðrar þrúgur ræktaðar í litlu mæli, eins og til dæmis Chenin Blanc og Ribolla Gialla. Napa dalurinn og Kalifornía nýtur svo góðs af nærveru University of California Davis, eða UC Davis. Þar má finna eina öflugustu menntun á sviði vínfræða í heiminum. 


Til að ferðast um Napa dalinn og skoða víngerðir er hægt að keyra annað hvort Silverado trail eða Highway 29, vegi sem liggja samsíða í gegnum Napa dal frá norðri til suðurs. Ef þörf er á að skipta um veg og komast hinum megin í dalinn eru þó nokkrir vegir sem þvera hann. Víngerðarsvæði Napa afmarkast nokkurn veginn af Calistoga í norðri og Napa í suðri en skilgreind AVA (e. American Viticultural Area) víngerðarsvæði innan Napa eru sextán talsins. Þau mikilvægustu eru: 

 

  • Atlas Peak AVA
  • Calistoga AVA
  • Diamond Mountain District AVA
  • Howell Mountain AVA
  • Mount Vedeer AVA
  • Oakville AVA, þar sem hið margrómaða To Kalon vínræktarsvæði er.
  • Rutherford AVA 
  • Stags Leap District AVA
  • Oak Knoll District of Napa Valley AVA
  • Yountville AVA


Saga víngerðar í Napa dalnum teygir sig aftur til 1839 þegar George Calvert Yount plantaði fyrstu þrúgunum. Það var þó ekki fyrr en 1861 sem fyrsta atvinnuvíngerðin leit dagsins ljós að forsvari Charles Krug. Undir lok 19. aldar var víngerð blómleg í Napa dalnum en átti eftir að nánast leggjast niður eftir rótarlúsafaraldur (Phylloxera) og hamarshögg bannáranna á fyrrihluta 20. aldar. Eins og víðast hvar annars staðar lagðist víngerð nánast af á þeim tíma, fyrir utan nokkrar víngerðir sem gerðu vín fyrir kaþólsku kirkjuna. Svarti markaðurinn lifði hins vegar góðu lífi og í Napa er þekkt sagan um svarta kjúklinginn sem menn báðu um í sveitasímanum. Í þessu tilfelli var svarti kjúklingurinn dulnefni fyrir flösku af Zinfandel. Það varð jú að tala undir rós því það var aldrei hægt að vita hverjir sætu á öðrum endum að hlusta. 


Eftir að áfengisbanninu var aflétt 1933 fór víngerð í Napa dalnum smám saman að lifna við. Hún fór þó ekki að slá fyrri ljóma við fyrr en upp úr 1962 þegar Robert Mondavi (1913-2008), einn af mikilsmetnustu víngerðarmönnum Napa, heimsótti Bordeaux í fyrsta sinn og kom með ýmsan fróðleik í farteskinu til baka til Napa. Árið 1979 tók hann svo höndum saman við þekkta víngerðarmenn frá Bordeaux, Mouton Rothschild, og Opus one varð til. Víngerð Mondavi varð einnig í framvarðasveit í innleiðingu vínferðamennsku Napa dals og er inngangur víngerðarinnar frægt kennileiti. Fleiri Frakkar hafa reynt fyrir sér á víngörðum Napa dals og má þar nefna Dominus víngerðina. Hana stofnaði Christian Moueix en hann er sonur Jean-Pierre Moueix, þekkts framleiðanda Chateau Pétrus í Pomerol, Bordeaux. 
Talandi um Napa og Frakkland, þá er varla hægt annað en að minnast á blindsmökkunarkeppnina í París árið 1976. Þar undirstrikuðu vín frá Napa dal gæði sín með því að sigra keppnina, Frökkum til mikillar furðu, og ekki enn síður ama. Stags Leap Cabernet og Montelena Chardonnay hafa fengið virðingarsess í Smithsonian safninu meðal 101 hluta sem gerðu Bandaríkin að því sem þau eru. Og auðvitað er búið að gera kvikmynd um þessa atburðarás sem skartar Alan Rickman í aðalhlutverki. Myndin heitir Bottle Shock og er frá árinu 2008. 

Berglind Helgadóttir vínráðgjafi
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi