Án efa er Cabernet Sauvignon ein þekktasta og vinsælasta rauðvínsþrúga heims. Úr þessari þrúgu eru gerð ein þekktustu vín veraldar, vín sem geta elst á fl öskunni í áratugi og batnað með aldrinum. Vín sem eru frábær matarvín og þá sérstaklega með rauðu kjöti. Lambakjöt á diskinn og Cabernet Sauvignon í glasið, fullkomið.
Þrúgan Cabernet Sauvignon á uppruna sinn að rekja til Bordeaux en þaðan koma ein frægustu rauðvín gerð úr þessari þrúgu.
Það má segja að hún sé ræktuð nánast allstaðar þar sem vín er ræktað, en nafn þrúgunnar eitt og sér getur verið trygging
fyrir góðri sölu.
Víngerð úr Cabernet Sauvignon einkennist af dökklituðum vínum með mikil tannín, hátt sýrustig og sterkan ilm, einkenni sem halda sér hvar sem hún er ræktuð. Sólber, kúrenur, kirsuber, minta, paprika og tóbak er meðal þess sem gerir vart við sig. Algengt er að láta vínin þroskast á eikartunnum og frá þeim koma svo bragð og lyktareinkenni eins og sedrusviður, kaffi ,
reykur, vanilla og eikartónar.
HELSTU VÍNRÆKTUNARSVÆÐI CABERNET SAUVIGNON
Í Bordeaux er þrúgan blönduð með öðrum þrúgum, til dæmis Merlot og Cabernet franc. Það fer svo eftir því frá hvaða svæðum innan Bordeaux hvernig blandan er. Í daglegu tali er Bordeaux skipt í tvö svæði, vinstri og hægri bakka. Á vinstri bakkanum eru vínræktarsvæðin Médoc, Margaux, St. Julien, Pauillac og St. Estephé, Graves og Pessac-Léognan. Yfirleitt er Cabernet Sauvignon í meirihluta í vínblöndunni á vinstri bakkanum, en þaðan koma ein virtustu, verðmætustu og langlífustu rauðvín sem völ er á. Cabernet Sauvignon er svo aftur á móti í minnihluta á hægri bakkanum á svæðum eins og St. Émilion og Pomerol en þar ræður Merlot ríkjum og eru vínin yfirleitt mýkri en vínin frá vinstri bakkanum
Kalifornía er kjörin fyrir framleiðslu á vínum úr Cabernet Sauvignon. Vínin eru gjarnan með sterk einkenni af vel þroskuðum
sólbökuðum ávexti, mikil en mjúk tannín, mjög dökkan næstum svartan lit og einkennandi eikar- og vanillutóna.
Chile er einkar hentugt land til ræktunar á Cabernet Sauvignon, og hafa vín þaðan náð mikilli hylli um allan heim og vakið athygli fyrir einstaklega hagstætt verð miðað við gæði. Þessi vín hafa oft léttan keim af sólberjum, papriku og mintu.
Í Argentínu hefur einnig náðst mjög góður árangur í ræktun á Cabernet Sauvignon og eru vínin oft nokkuð kröftug og tannísk á meðan þau eru ung.
Ástralir hafa náð mjög góðum árangri með ræktun á Cabernet Sauvignon. Frægust fyrir slíka ræktun eru héruðin Coonawarra og Margaret River. Vínin frá Ástralíu hafa gjarnan sterkan keim af eucalyptus, þungan dökkan ávöxt og ristaða vanillukennda eikartóna.
Frá Suður-Afríku koma svo vín úr Cabernet Sauvignon sem bera mun sterkari krydd og jarðartóna en gengur og gerist í vínum annarsstaðar frá.
Páll Sigurðsson, vínráðgjafi
(úr Vínblaðinu, 2.tbl.7.árg.)