Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Gin

Gin hefur náð töluverðum vinsældum síðustu ár.  Hér áður voru fáir sem drukku gin og þá aðallega í tonik eða greip, að vísu var Dry Martini kokteillinn vinsæll drykkur á undan mat. Mín fyrstu kynni af gini eru eftirminnileg en ekkert sérlega ánægjuleg, ilmurinn af gininu var fráhrindandi svona eins og af lélegum rakspíra og bragðaðist eins og.... hvað skal segja.... látum það liggja á milli hluta, ég vil ekki móðga neinn. Svo liðu mörg ár áður en ég vogaði mér að reka trýnið í eitthvað með gini í. Það kom svo að því að bæði nef mitt og gin náðu þeim þroska sem þarf til að kunna að meta þennan breska söngvaseið. 


Margir líta á gin sem tæran og litlausan drykk með krydduðu bragði, sem er að hluta til rétt. Gin getur þó haft ýmis litbrigði, sum sem koma frá kryddum sem notuð eru og eins frá eikartunnum sem það er látið þroskast í. 


Það eina sem þarf til að drykkur geti kallast gin er að spírinn þarf að vera hreinn og eimaður upp í 96% og einiber þurfa að vera ríkjandi í bragði.
Hægt er að laga gin á fleiri en einn hátt. Einiber eru einu jurtirnar sem reglur kveða á um að þurfi að vera í gini, en önnur krydd eru einnig notuð og má þar nefna hvönn, kóríander, kúmen, appelsínu- og sítrónubörk og lakkrísrót.


Sú aðferð sem þykir gefa af sér besta ginið er að tvíeimaður kornspíri er eimaður í þriðja sinn og eru alkóhólgufurnar þá látnar leika um kryddjurtirnar á leiðinni um eimingartækin og taka í sig bragðeinkennin úr kryddjurtunum. Í þetta eru notaðir sérstakir gin eimkatlar sem eru með hólf fyrir kryddjurtirnar. Önnur aðferð fer þannig fram að kryddjurtirnar eru látnar liggja í spíranum í nokkra daga og síðan er hann eimaður. Þessi aðferð er notuð við London Dry Gin. Þessi tegund af gini var upphaflega gerð í og umhverfis London, en hefur í dag enga landfræðilega þýðingu, heldur er átt við stílinn.  


Plymouth gin kemur hinsvegar frá Plymouth og eingöngu  þaðan. Stíllinn er kröftugri, með aðeins meiri einiberja- og rótarkeim. 

Distilled gin er gert á sama hátt og London gin, að því undanskildu að í þessa tegund gins má bæta öðrum bragðefnum við eftir á.  Afbrigði af því er til dæmis gin bragðbætt með agúrku.

Cold-Compounded gin  er svo ódýrasta útgáfan.  Þá er bragðefnum, olíum eða essensum, hreinlega blandað í spírann. 

Að lokum er vert að minnast á Old Tom Gin, stundum kallað „týndi hlekkurinn“ á milli sénívers og gins, en séníver var fyrirmyndin af gini. Þessi stíll var vinsæll á 18. öld en hvarf svo þar til ekki fyrir svo löngu að stíllinn var endurvakinn, byggður á upprunalegri uppskrift. Það er þessi tegund af gini sem notuð er í hinn vel þekkta drykk Tom Collins. 

Páll Sigurðsson Páll Sigurðsson  vínráðgjafi
vínráðgjafi