Móðir Jörð
Þeir sem kjósa grænan lífsstíl og þar með lífræn vín vilja bæta umgengni við náttúruna og stuðla að því að landbúnaður sé sjálfbær. Lífræn ræktun á vínekru lýtur í grunninn sömu kröfum og í landbúnaði almennt. Bannað er að nota tilbúinn áburð, skordýraeitur og öll önnur eiturefni sem notuð eru til verndar gegn sníkjudýrum. Þess í stað eru notaðar náttúrulegar leiðir til að vernda vínviðinn sem hafa þann tilgang að bæta jarðveginn og gera hann sjálfbæran, lifandi og nærandi fyrir plöntuna.
Því er ekki að neita að kolefnisfótsporin sem vínframleiðsla getur skilið eftir sig eru umtalsverð. Nægir þar að nefna bensínfrek landbúnaðartæki á vínekrunum og vínflutninga með skipum. Sumir vínframleiðendur hafa brugðist við þessu með því að leggja sig fram um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá framleiðslunni auk þess að kolefnisjafna vegna útblásturs sem ekki verður hjá komist. Þannig hafa þeir sem kjósa grænan lífsstíl kost á að kaupa kolefnisjöfnuð vín.
Hrein fæða
Þeir neytendur sem gera ríka kröfu um hreinleika og rekjanleika matvæla eru líklegri til að velja lífræn vín af sömu ástæðu og þeir kjósa að borða t.d. lífrænt ræktað korn eða grænmeti. Úr lifandi og sjálfbærum jarðvegi sem notaður er í lífrænni ræktun fæst uppskera sem er ríkari af næringu, vítamínum og steinefnum auk þess sem hún hefur ekki komist í snertingu við kemísk efni. Þess má líka geta að mörgum finnst bragðið af lífrænt ræktuðum matvælum vera meira og betra en gengur og gerist.
Í aldaraðir hefur súlfíti (brennisteinsdíoxíði) verið blandað í vín til að auka geymsluþol og varðveita bragð. Sumum finnst það vera „ónáttúruleg“ viðbót en þó verður að hafa í huga að í vínframleiðsluferlinu myndast náttúrulegt súlfít þegar þrúgurnar gerjast. Þótt hóflegt magn súlfíts sé hvorki talið skaðlegt fyrir manneskjur né umhverfi þá eru örfáir astmaveikir einstaklingar sem hafa ofnæmi fyrir því. Fyrir þá sem annaðhvort vilja ekki eða geta ekki valið vín með viðbættu súlfíti er á boðstólum vín án súlfíts sem nálgast má í Vínbúðunum.
Fjölbreyttir valkostir
Þeir sem kjósa grænan lífsstíl eru fjölbreyttur hópur og hafa vínframleiðendur komið til móts við mismunandi þarfir þeirra með því að bjóða upp á ýmsa valkosti. Má þar nefna vegan vín sem eru í boði fyrir grænmetisætur sem hafna öllu úr dýraríkinu í sínu mataræði. Vegan vín eru síuð með steinefnum í stað hefðbundinna efna úr dýraafurðum.
Lífefld vín (biodynamic) uppfylla kröfur um vistfræðilega sjálfbærni í anda Rudolf Steiner en þau eru gjarnan valin af hugsjónafólki sem vill leggja áherslu á siðræna og andlega þætti í ræktun.
Náttúruleg vín (natural) er enn einn flokkur lífrænna vína þar sem framleiðandinn grípur sem minnst inn í náttúrulega lögun vínsins og nýtir sér ekki þá tækni eða hjálparefni sem völ er á. Enn eru ekki til viðurkenndar skilgreiningar eða vottun á náttúrulegum vínum en almennt má segja um lífræn vín að þau séu búin að fara í gegnum vottunarferli sem tryggir að neytendur fá vín sem samræmist vali þeirra um grænan lífsstíl.
Loks má nefna að samvinnufélög undir merkjum sanngjarnrar framleiðslu (Fairtrade) er að finna meðal vínræktenda í fátækum löndum. Verðið fyrir vörur þeirra er fyrirfram ákveðið og allt að 60% af áætlaðri uppskeru greidd fyrirfram. Einnig þurfa Fairtrade vínræktendur að greiða vinnufólki sanngjörn laun og tryggja heilbrigt vinnuumhverfi.