Til þess að vínviðurinn skili sem bestum árangri er mikilvægt fyrir vínbóndann, sem framleiðir lífrænt vín að hafa eftirfarandi í huga:
- að tryggja næga næringu í jarðveginum og verja hann gegn allri óæskilegri efnanotkun
- að viðhafa bestu mögulegar ræktunaraðferðir á vaxtartímanum, nota réttu vínviðartegundirnar og vanda vel umhirðu og upphengingu laufþykknisins
- að tímasetja vel allar varnaraðgerðir rétt og beita þeim á skynsaman hátt
- að gera allt það sem hægt er til að tryggja kraft og heilbrigði vínviðarins, þar sem það tryggir enn frekar náttúrulegt mótstöðuafl hans
- að nota lífræn efni til þess að verja vínviðinn gegn skordýrum og gera allt sem mögulegt er til þess að viðhalda heilbrigði gróðurs í næsta nágrenni víngarðsins
Þegar kemur að því að hverfa frá efnum sem úða má vínviðinn með, til varnar skordýrum, þá snúa ræktendur sér til náttúrulegra varna. Þá er átt við að til þess að verjast ákveðnum tegundum fiðrilda og flugna sem verpa í lauf vínviðarins eru flugnagildrur settar víðsvegar upp í garðinum. Þessar gildrur eru framleiddar þannig að þær innihalda kynhormóna sem laða fluguna að sér. Þessi aðferð hefur reynst mjög vel. Einnig er sú aðferð notuð að byggja upp fjölda kóngulóa sem lifa á lirfunum og flugunum, eða þá að byggja upp fjölda maríubjalla í görðunum en hún er þekkt fyrir að vera mjög áhrifarík í að nærast á margskonar maurum og smáverum sem sækja á vínviðinn. Einnig hefur verið áhrifaríkt að eyða sniglum og ormum með því að nota gæsir eða endur til þess að marsera um garðana og nærast á óæskilegum skordýrum. Allt er þetta gert til þess að halda í lágmarki allri úðun efna á víngarðana.
Þegar framleiðandi hefur uppfyllt öll þessi skilyrði þá getur hann fengið vottun hjá þar til skipuðum aðilum sem staðfesta við fulltrúa Evrópusambandsins að viðkomandi vara sé framleidd eftir stöðlum lífræns landbúnaðar. Þá getur framleiðandinn notað merkinguna sem Evrópusambandið hefur gert til þess að tjá neytendum að um sé að ræða lífræna framleiðslu.