Lífræn ræktun vínviðarins leiðir af sér að allt umhverfi vínviðarins, svo sem garðurinn sjálfur og allt nánasta umhverfi hans, tryggir náttúrunni á svæðinu ákveðið heilbrigði og jafnvægi. Til þess að tryggja frjósemi jarðvegsins er eingöngu notaður húsdýraáburður og inn á milli vínviðarraðanna er ræktaður annar gróður sem tryggir fjölbreytileika í flóru víngarðsins. En lífræn ræktun er ekki eina formið á betri vinnubrögðum í víngarðinum.
Bíódínamísk ræktun er annar valkostur, en í þeirri tegund ræktunar eru ekki einungis notaðar lífrænar aðferðir heldur er öll ræktun og uppskera unnin þegar staða himintungla er rétt. Þá er víngarðurinn einn og sér orðinn eitt lífkerfi og til þess að allt sé í réttu jafnvægi er kýrhorn fyllt með kúamykju grafið niður í eitt horn garðsins.
Einnig er til eitthvað sem kallað er náttúrulegt vín, en ef það á að vera í hæsta gæðaflokki þá þarf það að vera vín sem er lífrænt alla leið og auk þess án allra viðbótarefna, eins og t.d. súlfíts. Allt frá árinu 1991 hafa verið til staðar reglur frá Evrópusambandinu, sem halda utan um alla staðla er þurfa að vera til staðar til þess að fá víngarð vottaðan sem lífrænan. Allt frá þessum tíma hefur hið opinbera, í hverju landi fyrir sig, tekið yfir allt eftirlit og vottun framleiðenda. Það er síðan árið 2012 sem Evrópusambandið gefur út reglugerð um lífræna víngerð, sem tók þá til allrar vinnu í víngerðinni sjálfri. Þar með var búið að setja reglur um allt ferlið frá ræktun berjanna til uppskeru og vínframleiðslunnar sjálfrar.
Sögu skipulagðrar víngerðar má rekja aftur um ein 7.000 ár eða svo. Það sem við köllum léttvín eða borðvín er því ekki nýtt fyrirbrigði. Fornminjar gefa til kynna að fyrst hafi skipulögð vínræktun í víngörðum hafist í Kákasus. En fljótlega eftir það barst þessi þekking til landanna fyrir botni Miðjarðarhafsins og þaðan yfir til Evrópu.
Það er nútímamanninum ekki til frægðar að með landbúnaðarbyltingunni, sem varð með aukinni vélvæðingu og tækniþekkingu upp úr fyrri heimsstyrjöldinni fór að síga á ógæfuhliðina í meðferð á landinu. Framleiðsluaukningin varð gríðarleg og til þess að ná henni hófu menn að nota mikið af tilbúnum áburði og margskonar eiturefnum til þess að verja framleiðsluna fyrir skemmdum á ræktunartímanum. Það er á þessum tíma sem fjöldi vínbænda dró sig út úr þessum hópi framleiðenda og skynjaði þörfina á því að fara vel með landið og ákváðu í framhaldi af því að stunda eins náttúrulega framleiðslu og mögulegt var. Þetta voru í raun og veru fyrstu lífrænu framleiðendurnir meðal vínbænda. Þessi hópur stækkar gríðarlega hratt í dag og eftirspurnin eftir lífrænt framleiddum vínum eykst dag frá degi.