Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Lífræn ræktun

Lífræn ræktun - fyrirsögn

 

Magnús Traustason, vínsérfræðingur (úr Vínblaðinu, 3.tbl.6.árg.)

Við höfum öll heyrt á þetta minnst en hvað er þetta fyrirbæri „lífræn ræktun“? Þetta er í senn flókið og einfalt fyrirbæri. Til að skilja þetta er ágætt að tileinka sér ákveðið hugarfar, en það er nokkuð sem allt of margir gera ekki. Maður heyrir oft alls kyns kjánalegar athugasemdir um lífræna ræktun... allt of oft.

Gróður

Kannski verður maður að spyrja sig fyrst, hvað er ekki lífræn ræktun. Til að ræktun sé lífræn er ekki bara nóg að einhverjar skepnur geri þarfir sínar á staðnum, eins og virðist vera viðhorf margra. Lífræn ræktun hefur í för með sér mikinn aga og gjörbreytt viðhorf til ræktunar, sem og umhverfisins sjálfs, enda mætti segja að þetta sé langtímaskuldbinding, á móts við skyndilausnina sem notkun kemískra efna er. En hlutverk lífrænnar ræktunar er, á öllum stigum, að hlúa að lífríkinu, allt frá smæstu lífverum í jarðvegi, til mannsins sem neytir afurðanna. Því má segja að mottóið sé að heilbrigður og næringarríkur jarðvegur skilar af sér heilnæmri fæðu sem eykur heilbrigði neytandans.

Upphaf lífrænnar ræktunar er andstaða við iðnvæðingu landbúnaðar, snemma á síðustu öld, þegar kemískur áburður var að ryðja sér til rúms, mjög ódýr vara sem menn notuðu í miklu magni, en mörgum þótti að við værum að fara á mis við hæfileika náttúrunnar sjálfrar að viðhalda eigin jafnvægi. Menn vildu, og vilja enn, meina það að með þessari notkun kemískra efna væri ekki verið að auka næringu í jarðvegi, heldur eingöngu gefa plöntunni sjálfri næringu, þannig að jarðvegurinn er áfram næringarsnauður og auðvelt væri fyrir bóndann að festast í þessum vítahring. Húsdýraáburður hefur ekki þessi áhrif, né heldur molta, sem er rotnandi jurtaleifar, en við rotnunina losnar mikið magn næringarefna út í jarðveginn. Önnur aðferð sem virkar vel til að viðhalda næringu jarðvegsins, er að rækta ekki það sama, á sama staðnum, ár eftir ár, heldur færa það til og rækta þar aðrar jurtir, en mikill munur getur verið á því hvaða efni jurtirnar nýta, og hverjum þær skila í jarðveginn.

Skordýraeitur er ekki viðurkennt, en hægt er að beita ýmsum öðrum aðferðum til að losna við skordýravanda. Mjög algengt er orðið að koma fyrir hylkjum á víð og dreif um ræktaða svæðið, sem innihalda feromón, en þau trufla tilhugalíf skordýranna svo þeim fjölgar mun minna en ella. Einnig er áhrifaríkt að hlúa að náttúrulegum óvinum skordýranna, hvort sem er fuglum eða öðrum skordýrum, til að halda skaðvaldinum í skefjum. Þess vegna má víða sjá hreiðurkassa fyrir fugla í vínekrum, sem eru til
þess gerðir að fuglar setjist að í ekrunni.

 Notkun á graseyði er ekki leyfileg, en það er eitur sem úðað er á óæskilegar plöntur, sem innan örfárra tíma visna upp og deyja. Vínbændur sem stunda lífræna ræktun vilja heldur plægja jörðina milli vínviðarraðanna til að losna við gróður, eða rækta þar aðrar hentugri jurtir, sem skila oftar en ekki aukinni næringu í jarðveginn.

Myglur geta verið ansi skæðar í flestallri ræktun og er sveppaeyðir einföld lausn á vandamálinu, en það eru efni sem menn kæra sig ekki um í lífrænni ræktun. Ein leið til að minnka áhrif sveppagróðurs er að gæta þess að gras eða annar hár gróður vaxi ekki upp við stofn vínviðarins. Menn gæta þess að það lofti vel um bæði berjaklasa og laufkrónu vínviðarins, annars gæti raki safnast saman og ýtt undir mygluvöxt.

Erfðabreyttar lífverur eru annað viðkvæmt mál og eru ekki viðurkenndar í lífrænni ræktun, enda er mjög lítið vitað um áhrif þeirra á lífkerfi jarðarinnar. Einnig eru hormón litin hornauga en þau hafa ýmiskonar áhrif á vöxt og þroska plöntunnar, sem fæst hafa verið rannsökuð nægilega vel.

Í sjálfu sér er lífræn vara ekki endilega bragðbetri en önnur vara, því menn geta að sjálfsögðu fylgt öllum reglum, en samt unnið verkið illa. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að lífrænt ræktað grænmeti og ávextir innihaldi meira af andoxunarefnum, sem eru líkamanum mikilvæg og velji nú hver fyrir sig!