Umræðan um hvað verði um korktappann í framtíðinni hefur verið ótrúlega sterk undanfarin ár, en allir sem hafa fylgst vel með vöruvali vínbúðanna undanfarin ár, hafa veitt því athygli að vínum með skrúftappa fjölgar stöðugt. Portúgalir hafa verið stærstir í framleiðslu á korktöppum og eru þeir gersamlega niðurbrotnir yfir þessari miklu umræðu um ágæti skrúftappans. Svo alvarlegt er þetta fyrir Portúgala að samtök korktappaframleiðenda þar lögðu af stað í gríðarlega herferð til varnar korktappanum. Það var einkar áhugavert að sjá þegar herferðin hófst hvern framleiðendurnir höfðu valið sem andlit herferðarinnar til varnar korkinum. Það var að þeirra mati þekktasti Portúgalinn í dag, enginn annar en knattspyrnuþjálfarinn
heimsfrægi Jose Mourinho fyrrum þjálfari stórliðs Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Það verður áhugavert að sjá hver þróunin verður í þessari keppni um hvert sé besta efnið til að loka vínflöskunni í framtíðinni. Í dag er staðan sú að það eru helst þrjár tegundir tappa sem hafa náð fótfestu á markaðinum. Þetta eru að sjálfsögðu korktapparnir sem enn eiga langsamlega stærsta hluta markaðarins. Þar á eftir í röðinni eru nú skrúftapparnir og síðastir í röðinni koma svo plasttapparnir. Það er skrúftappinn sem ógnar helst korkinum í dag. Í fararbroddi í notkun á skrúftappanum eru tvær þjóðir, andfætlingar okkar í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Fyrstir til að fara af stað með skrúftappann að einhverju ráði og sem framtíðarlausn í lokun flöskunnar voru Nýsjálendingar. Þetta kom til af því að einn af stærstu framleiðendum landsins varð fyrir því eitt árið að fá í hendurnar korktappa sem ekki höfðu verið dauðhreinsaðir, þannig að í þeim var baktería sem fór út í vínið og eyðilagði stóran hluta ársuppskerunnar. Þetta var líklega kornið sem fyllti mælinn. Framleiðandinn skipti alfarið yfir í skrúftappa. Skrúftappinn hefur tekið gríðarlegum framförum sem lokun á flöskunni.
Áður fyrr var það einn þunnur hringur sem hélt tappanum á flöskunni ásamt auðvitað klassískum skrúfganginum. Þetta er breytt í dag og nú eru menn með álplötu sem lítur út eins og málmhettan sem hefur hulið korktappann til þessa. Þessi nýja tegund af skrúftöppum hefur betra hald á tappanum sjálfum þannig að þetta er betri lokun en áður hafði þekkst í skrúftöppum. Nú er því notað mun meira ál í skrúftappann en áður og þá sjá auðvitað álrisarnir sér leik á borði og hvetja til aukinnar notkunar á skrúftappanum. Einn öflugasti framleiðandi áltappa í heiminum í dag er fyrirtæki sem kallast Stelvin og fyrir einhverjum mánuðum síðan var einmitt einn álrisinn að kaupa það fyrirtæki, en þar voru á ferð engir aðrir en Alcan sem rekur álverið í Straumsvík. Ekki eru allir jafn ánægðir með þessa nýjung, skrúftappann. Framreiðslumenn, öðru nafni þjónar, eru ekki par hrifnir af komu skrúftappans, enda má segja að athöfnin að opna vínflösku við borð gesta á veitingastað hafi að vissu leyti orðið að ómerkilegri athöfn gerðri í einu handtaki. Þjónar geta gert úr korktappanum ákveðna sýningu við borðið, sem verður ekki eins mikil athöfn þegar skrúfa þarf málmtappa af flöskunni. Skrúftappinn mun því ganga af tapparómantíkinni dauðri. Svo er það einn hlutur enn sem umræðan hefur snúist um en það er að skrúftappinn sé of þéttur og hleypi ekki neinu súrefni inn á vínið. Það er þekkt staðreynd að korkurinn hleypir örlitlu súrefni inn á vínið á nokkurra ára tímabili og vínið þroskast því vel á slíkri flösku. Gagnrýnendur skrúftappans benda hins vegar á að ekkert loft komist að víninu og að það taki því ekki út þann þroska sem gott vín gerir í gegnum korktappann. Enn aðrir vilja meina að skrúftappinn hleypi of miklu lofti inn á vínið og að það fái yfir sig oxideraðan keim. Það er alveg morgunljóst að mjög skiptar skoðanir eru um hvaða efni hentar best til þess að loka vínflöskunni. Allt frá árinu 1676 hefur korkurinn verið það efni sem best hefur þótt til þess að loka flöskunni. Síðasta áratuginn höfum við séð þetta vera að breytast og trú nútíma víngerðarmanna er gríðarleg á skrúftappanum. Það verður því forvitnilegt að fylgjast með þróun hans á komandi árum.
Gissur Kristinsson, vínsérfræðingur
(úr Vínblaðinu, 1.tbl.7.árg.)