Páll Sigurðsson, vínsérfræðingur
(úr Vínblaðinu, 1.tbl.6.árg.)
Nú er sá tími sem við Íslendingar innbyrðum hvað mest súkkulaði, oft í formi páskaeggja, en einnig slæðast þó stöku konfektmolar og gæða súkkulaðibitar með. Fyrir kemur að ég er beðinn um aðstoð við að velja vín með súkkulaði og ósjaldan er óskað eftir rauðvíni. Ég hef vissulega bragðað rauðvín sem virkaði vel með súkkulaði, en oftar hef ég þó orðið fyrir vonbrigðum. Aftur á móti hef ég upplifað ánægjulegar bragðlaukagælustundir með hvítum sætvínum og súkkulaði. Sætan í víninu getur tekist á við sætuna í súkkulaðinu og ekki eru tannín til staðar sem þvælast fyrir og gera manni lífið leitt. Hér eru nokkur vín sem að mínu mati renna ljúft niður með súkkulaði; þetta er aðeins brot af því úrvali sem til er í vínbúðunum en vínráðgjafar vínbúðanna geta að sjálfsögðu aðstoðað ykkur ef þið hafið áhuga á að kynnast hinum mjúku, ljúfu og sætu hliðum sælkeraheimsins. Sauternes eru eflaust frægustu sætvínin, þau koma frá samnefndu héraði í Bordeaux, Frakklandi. Vínin sem eru dísæt, ilma af hunangi, apríkósum og þurrkuðum ávöxtum, renna ljúft niður með súkkulaðibitum og ekki síður heitri súkkulaðiköku. Tokaji Aszú eru konungleg vín frá Ungverjalandi, dísæt, með ferska sýru, apríkósur, ferskjur og sveppatóna. Með þessu víni væri gott að fá sér súkkulaði fondú og dýfa jarðarberjum í, eða súkkulaðiköku með skógarberjasósu.
Vin Santo frá Ítalíu og Vin de Paille frá Frakklandi eru vín gerð úr þurrkuðum þrúgum. Þessi vín einkennast oft af rúsínutónum, karamellu, þurrkuðum ávöxtum og eikarkeimi. Með þessum vínum væri ég alveg til í að fá mér súkkulaði með hnetum og rúsínum eða jafnvel hvítt súkkulaði. Moscato d’Asti eru lágfreyðandi sæt hvítvín frá Piemonte á Ítalíu, þessi vín hafa lágt alkóhól, ferskan vínberja og ávaxtakeim. Lágt alkóhólið er aðall þessara vína sem hreinlega kalla fram vor í hugann, þegar léttar gosbólurnar kitla góminn. Ég hef ekki enn fundið súkkulaði sem passar ekki með Moscato. Það er einnig kostur við sætvínin að undanskildu Moscatóinu, að það er hægt að geyma þau nokkuð lengi í kæli, eftir að þau hafa verið opnuð, þau tapa sáralitlu þótt þau séu vikugömul eða jafnvel eldri. Það þarf því ekki endilega að klára flöskuna strax. Og er svo ekki bara skemmtilegt að sjá eitthvað sætt þegar maður opnar ísskápinn?