1. Sérlisti
Ef þig langar til þess að bragða á vínum sem teljast meðal bestu vína heims líttu þá á úrvalið á Sérlista Vínbúðanna. Þar er að finna vín sem sérfræðingar fyrirtækisins hafa sérstaklega valið, til viðbótar við annað vöruval, sem eru dæmigerð fyrir það besta sem völ er á frá hverju víngerðarlandi fyrir sig. Undirritaður var á ferð í London fyrir stuttu síðan og leitaði í betri vínbúðum Lundúna eftir sömu vínum og eru á sérlistaVínbúðanna. Þá var það almennt svo að sömu vín reyndust vera rétt um 30% dýrari í þessum fínu verslunum í stórborginni. Sérstaklega var þetta eftirtektarvert með herragarðsvínin (Chateau) frá Bordeaux. Það eru því forréttindi fyrir Íslendinga að kaupa þessi glæsilegu vín í Vínbúðunum.
2. Gamli heimurinn
Gættu að því að það eru ekki bara dýru vínin frá frægustu vínræktarhéruðum heims sem fást í Vínbúðunum. Þar eru einnig vín frá þessum frægu stöðum sem fást á sérstaklega góðu verði. Það eru gjarnan vín sem fengist hafa svo árum skiptir í Vínbúðum hér á landi. Sérstaklega á þetta við um vín frá Gamla heiminum, sem við köllum svo. Í Vínbúðunum eru starfandi starfsmenn sem hafa farið í Vínskóla Vínbúðanna og lært margt um þá vöru sem verið er að bjóða uppá. Ekki hika við að spyrja þá um þessi gömlu góðu vín sem hafa fengist hjá okkur í áratugi.
3. Úrval
Notfærðu þér að kaupa vín frá svæðum sem eiga marga fulltrúa í Vínbúðinni. Þetta eru svæði eins og til dæmis Rioja á Spáni en þar er að finna mörg geysilega góð vín í mörgum verðflokkum. Líttu svo út eins og sérfræðingur með því að geta beðið sérstaklega um Crianza, Reserva eða Gran Reserva vín sem eru gæðaflokkarnir í Rioja vínum. Crianza er léttasta vínið og fær stuttan tíma í eik og á flöskunni áður en það er sett á markað. Reserva fær lengri tíma í eikartunnu og flöskunni til að þroskast áður en það er sett á markað. Reserva vínin hafa meiri bragðfyllingu heldur en Crianza vínin. Svo er það toppurinn en það eru Gran Reserva vínin, en þau fá lengsta tímann á eikartunnunni og flöskunni áður en þau eru sett á markað. Þetta eru bragðmestu og glæsilegustu vín héraðsins.
4. Verð og gæði
Það er oftast nær hægt að treysta því að verð og gæði fara saman í borðvínum. Það er því hægt að stóla á að ódýrustu vínin eru ekki þau kraftmestu. Það er ótrúlegt hvað hægt er að fá mun betra vín ef farið er í verðbilið 1.500 krónur til 2.000. Ódýru vínin eru líka fín, þar sem óþarfi er að drekka lúxusvín daglega, en að sama skapi verðum við að draga upp flösku af betra víni þegar gera á vel við sig og sína. Þá er þetta ekki nema kannski 300 til 500 krónur meira sem við þurfum að borga fyrir flöskuna til þess að fá mjög gott vín. Um þessi úrvalskaup vita starfsmenn Vínbúðanna.
5. Flaska eða kassi
Lítum aðeins á kassavínin sem mörg hafa verið að hækka svo um munar að undanförnu. Mörg þessara vína eru nú komin langt yfir 4.000 krónur. Þá er vert að staldra við og spyrja sjálfan sig að því hvort ekki sé hægt að finna fjórar flöskur af ódýru en góðu víni sem kostar minna. Það er hægt! Í Vínbúðunum eru mörg vín á verði í kringum 1.000 krónur og undir því sem geta vel komið í stað kassans sem er samsvarandi magn og er í fjórum léttvínsflöskum. Það er því ljóst að sum kassavínin eru að hækka upp fyrir verð fjögurra góðra flöskuvína. Þegar þetta er orðið staðreynd þá er rétt að taka það fram að það er ekki til sá vínframleiðandi sem setur besta vínið sitt á kassa.
6. Síðasti söludagur
Það er annað atriði við kassavínin sem vínsérfræðingar vita að sjálfsögðu um, en það er áfyllingardagsetning vínsins. Á hverju kassavíni er að finna átöppunar-dagsetninguna, því styttra sem er frá þessari dagsetningu þeim mun ferskara er vínið. Við kaupum ekki vín sem er orðið mjög gamalt á kassanum. Það er svo að vín á pappakassa verður mun fyrr slappt en væri það sett á flösku. Það er því ljóst að vín sem er búið að vera í pappakassa í ár eða meira er orðið verulega þreytt og búið að missa allan ávöxt.
7. Geymsluþol
Við sérfræðingarnir vitum að hvítvín eru framleidd til þess að drekka þau ung. Best er að drekka þau innan tveggja til þriggja ára frá uppskeru. Sérstaklega á þetta við um vín sem koma frá Nýja heiminum í víngerðinni. Til Nýja heimsins teljast löndin utan Evrópu; Suður-Afríka, Ástralía, Nýja-Sjáland, Chile, Argentína og Bandaríkin. Þessi lönd hafa hingað til ekki framleitt mörg vín sem þola geymslu til margra ára heldur er um einstaka vín að ræða. Í Vínbúðunum fást hvítvín sem þola nokkurra ára geymslu og þá erum við að tala um vín frá Gamla heiminum.
8. Villibráðarvín
Nú nálgast jól og áramót og þá viljum við gera alveg sérstaklega vel við okkur. Þá sýnum við af okkur þekkingu með því að átta okkur á að íslenska villibráðin er einstaklega bragðmikil. Þá erum við að ræða um villibráð eins og rjúpu, hreindýr, villigæsir og villiendur. Með þessum matartegundum þurfum við að bera fram öflug rauðvín. Þegar við erum að bera fram svona bragðmikinn mat þá verður vínið að vera kröftugt svo að maturinn yfirgnæfi ekki vínið algerlega. Það er eins konar þumalputtaregla sem segir að það sé ekki hægt að finna kröftug og glæsileg rauðvín án þess að fara í nánd við 2.000 krónu flösku. En ef við erum að bera fram máltíð þar sem uppistaðan er kjöt sem kostar fleiri þúsundir króna á kílóið, þá getum við ekki borið fram eitthvert glundur með því. Þetta vitum við snillingarnir, ég og þú.
9. Skötuvín
Og í framhaldi af umræðunni um jólin framundan þá er rétt að koma aðeins inn á að það er ekki hægt að finna vín sem getur farið með Þorláksmessuskötunni. Það er máltíðin sem kallar á bjór og snafs, eða jafnvel vatn í lítratali.
10. Allt er best í hófi
Snillingar í vínkaupum vita síðan að hófleg neysla borðvína er það sem eykur lífsfyllingu. Það er miklu skemmtilegra fyrir alla að kaupa sjaldnar og minna magn af víni, heldur en að kaupa bara það sem kostar lítið en er nógu hátt í áfengisprósentu til þess að skapa nægjanlega vímu. Sælkerar og sérfræðingar neyta matar og víns með tilhlýðilegri virðingu og í magni sem skilar gleði og ánægju, en ekki í því magni að það skaði heilsu og lífsgleði fólks.
Gissur Kristinsson, vínsérfræðingur
(úr Vínblaðinu, 3.tbl.5.árg.)