Gissur Kristinsson, vínsérfræðingur
(úr Vínblaðinu, 1.tbl. 5.árg.)
Þetta frábæra víngerðarland er ásamt Frakklandi annar af tveimur risum vínheimsins. Engin önnur lönd komast með tærnar þar sem þessi tvö hafa hælana hvað varðar magn framleiddra vína. Það má eiginlega segja að Ítalía sé einn stór víngarður frá norðri til suðurs. Víngerð hefur verið hluti af daglegri menningu á Ítalíu í margar aldir.
Ef við lítum aðeins á legu landsins, þá er hún slík að það hlýtur að vera hægt að finna á Ítalíuskaganum réttu ræktunarskilyrðin fyrir allar tegundir af vínviði. Í norðri skýla Alparnir landinu fyrir svölum vindum. Niður allan Ítalíuskagann (stígvélið) liggja fjallgarðar allt frá svölu loftslagi í norðri til eyðimerkurhita í suðri, þannig að allar kjöraðstæður til víngerðar eru til staðar. Alveg sama hvort viðkomandi vínviður þarf svalt, heitt, þurrt eða rakt loftslag þá eru bestu ræktunarskilyrði til staðar einhversstaðar á Ítalíu.
Það voru Ítalir sem fluttu með sér þekkingu á víngerð til annarra landa í Evrópu. Þegar veldi keisaranna stóð sem hæst og þeir sendu heri sína í landvinninga í vestur og norður, þá fluttu herirnir með sér þekkinguna. Það þótti nefnilega sjálfsagður hlutur að starfsmenn keisaradæmisins gætu gætt sér á guðaveigum á ókunnum slóðum, líkt og heima fyrir. Ekki var hægt að senda þá í útlegð og fjarvistir frá ástvinum, nema að þeir gætu létt sér stundirnar við drykkju góðra vína. Annars hefði lífið í útlegðinni gert út af við blessaða hermenn keisaradæmisins.
Ítalir hafa í gegnum aldirnar framleitt mikið af ódýru víni til hversdagsnota, en hinn almenni neytandi á Ítalíu notar gjarnan vín rétt eins og við notum vatn eða mjólk. Við þekkjum mörg þessara vína og þá sérstaklega vín eins og Lamrusco, Chianti og Valpolicella. Þessi vín teljast til þessa stóra hóps vína hversdagsins á Ítalíu.
Svo eru það hin meiri og merkilegri vín eins og til dæmis Barolo, Barbaresco, Amarone, Brunello di Montalcino og Vino Nobile di Montepulciano. Þessi vín koma frá þremur virtustu ræktunarsvæðum landsins sem eru Piemonte, Veneto og Toscana. Þessi vín hafa í áraraðir verið talin meðal bestu rauðvína heims. Já rauðvín eru helstu ær og kýr Ítalíu, á sama tíma og framleiðendum landsins hefur ekki tekist að öðlast frægð fyrir hvítvínsframleiðslu.
Sala ítalskra vína hefur í gegnum tíðina verið nokkuð góð og vín landsins verið meðal þeirra vinsælustu í áratugi. Ef við lítum á sölutölur undanfarinna ára á hvítum vínum frá Ítalíu þá hefur sú sala verið á hægri niðurleið undanfarin ár. Hvít ítölsk vín tóku nokkuð gott stökk upp á við árið 2000 til 2002, en síðan þá hefur salan sigið eilítið niður á við ár frá ári. Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir ítölsk vín, sérstaklega núna síðustu 2 árin en á þeim tíma hefur verið mikil aukning í sölu á hvítum vínum. Þannig að Ítalir hafa verið að tapa sölu hér, á sama tíma og önnur lönd hafa verið að bæta verulega í. Árið 2000 voru Íslendingar að drekka 46.215 lítra af hvítu víni frá Ítalíu en á síðasta ári var salan alls 60.504 lítrar. Þegar salan var mest þá nam hún 67.761 en það var árið 2002.
Ef við lítum síðan á þróun sölu rauðra vína frá Ítalíu þá hefur hún verið minnkandi síðustu ár. Mest var rauðvínssalan árið 2004 en þá voru seldir 281.282 lítrar. Síðan þá hefur þessi sala dalað og er á síðasta ári komin niður í 236.945 lítra. Þetta segir þó ekki alla söguna þar sem að á síðasta ári virðist eins og að salan sé að komast í ákveðið jafnvægi eftir nokkurn samdrátt árið 2005. Þrátt fyrir þennan samdrátt undanfarin tvö ár skal það tekið fram að aukningin í sölu ítalskra rauðvína hefur orðið gríðarlega síðasta áratuginn. Árið 2000 seldust hér á landi 123.041 lítri af rauðvínum frá Ítalíu, en árið 2006 fór þessi sala í 236.945 lítra og það myndi teljast ágætis aukning. En því miður fyrir ítalska framleiðendur þá náði salan hámarki árið 2004, þegar salan var 281.282 lítrar.
En hvaða ítalska vín skyldi vera vinsælast meðal Íslendinga?
Þegar sölunni á síðasta ári er skipt niður á ræktunarsvæði þá kemur í ljós að vín sem koma frá svæðinu Veneto eru vinsælust, þar á eftir kemur svæði sem kallast Toscana og í þriðja sætinu eru síðan vínin frá ræktunarsvæðinu Emilia – Romagna. Þetta er í raun og veru allt eftir bókinni þar sem að þessi svæði framleiða öll gríðarlegt magn vína og eru öll þekkt á helstu útflutningsmörkuðum Ítalíu. Í fjórða sæti yfir héruðin kemur síðan Piemonte, eða nánar tiltekið lítið ræktunarsvæði í þessu mikla héraði að nafninu Asti. Asti er frægast fyrir að framleiða mikið magn af léttum ávaxtaríkum eilítið sætum og umfram allt ódýrum freyðivínum. Það eru þessi ágætu freyðivín sem til margra ára hafa verið mest seldu freyðivínin hér á landi. Sennilega erum við svona hrifin af þessum sætu freyðivínum þar sem að þjóðin hefur ekki þróað með sér smekk fyrir þurrari freyðivínum. En allt gott með það, Asti freyðivín eru yfirleitt ákaflega fersk og ávaxtarík og tilvalin til þess að njóta í góðra vina hópi. Önnur héruð eru með mun minni sölu en þessi sem hér voru talin upp. Hér fylgir tafla yfir sölumagn og röð ítalskra vínhéraða miðað við magn í lítrum talið árið 2006.
Veneto |
150.549,1 lítrar
|
Toscana |
60.006,2 lítrar
|
Emilia – Romagna |
50.670,3 lítrar
|
Asti |
46.940,3 lítrar
|
Puglia |
22.079,3 lítrar
|
Sicilia |
13.458,0 lítrar
|
Trentino – Alto Adige |
6.33 6,8 lítrar
|
Abruzzo |
6.286,5 lítrar
|
Friuli |
3.326,3 lítrar
|
Marche |
1.393,5 lítrar
|
Umbria |
540,8 lítrar
|
Samtals önnur ræktunarsvæði |
6.762,3 lítrar
|
Samtals sala ítalskra vína 2006 |
378.349,2 lítrar
|
En svona samantekt á sölu eftir héruðum segir ekki alla söguna. Það eru ákveðin vín sem hafa náð gríðarlegum vinsældum hér á landi. Það vín sem selst í langmestu magni allra ítalskra vína er kassavín frá Veneto sem framleitt er af fyrirtækinu Pasqua. Þetta er Cabernet Merlot Venezie blanda og hefur hún greinilega heillað Íslendinga. Þar á eftir kemur vín frá Emilia – Romagna og þar er á ferðinni rósavín sem greinilega fellur vel að smekk landans. Þetta er léttfreyðandi og hálfsætt rósavín sem heillar svona neytendur hér á landi. Þriðja vínið í röð mest seldu ítölsku vínanna er freyðivínið fræga frá Asti svæðinu, eða Asti Gancia. Þetta eru sem sagt þrjú söluhæstu ítölsku vínin á Íslandi árið 2006. Ég læt fylgja hér með lista yfir þau 20 söluhæstu árið 2006.
Pasqua Cabernet Merlot Venezie |
49.320,00 lítrar
|
Riunite Blush Bianco |
30.814,50 lítrar
|
Gancia Asti |
21.828,00 lítrar
|
Pasqua Merlot delle Venezie |
19.692,00 lítrar
|
Santero Moscato Spumante |
16.456,50 lítrar
|
Riunite Lambrusco |
15.846,00 lítrar
|
Pasqua Pinot Grigio delle Venezie La Rovere |
11.821,50 lítrar
|
Masi Campofiorin |
10.498,50 lítrar
|
Tommasi Valpolicella Rafael |
8.183,25 lítrar
|
Santa Cristina |
7.043,25 lítrar
|
Bolla Pinot Grigio |
6.447,00 lítrar
|
Villa Puccini Toscana |
6.005,25 lítrar
|
A Mano Primitivo |
5.913 ,75 lítrar
|
Masi Valpolicella Classico |
5.763,75 lítrar
|
Pasqua Montepulciano d’Abruzzo |
5.589,00 lítrar
|
Martini Asti |
5.545,50 lítrar
|
Villa Antinori |
5.291,25 lítrar
|
Tommasi Le Prunée Merlot |
5.007,75 lítrar
|
Tommasi Ripasso |
4.377,00 lítrar
|
Dievole Rinascimento |
3.838,50 lítrar
|
Þessi sala er rétt um 65% af allri sölu ítalskra vína hér á landi á síðasta ári. Það er því ljóst að erfitt er að ná almennilegri fótfestu á markaðinum, en þegar það tekst er greinilegt að Íslendingar kunna að meta framleiðslu þessa mikla víngerðarlands. Ítalía er frábært land enda eru ekki önnur lönd þeim fremri í svo mörgu. Þar er helst að nefna aldagamla tónlistarhefð, matargerðina og svo að sjálfsögðu víngerðina sem hefur skapað þeim nafn sem eitt af menningarstórveldum veraldar.