Flest rauðvín batna við að anda í hálfa til eina klukkustund. Til að vín andi þarf að umhella því í karöflu. Einnig má hella víni í könnu og svo aftur í flöskuna. Í þroskuðum rauðvínum getur myndast botnfall. Það er leiðinlegt að fá gruggugt vín og því borgar sig að umhella eldri vínum ef líkur eru á að grugg sé byrjað að myndast í þeim. Fyrst þarf að láta flöskuna standa kyrra meðan gruggið fellur til botns. Síðan er flaskan opnuð og víninu umhellt varlega svo gruggið þyrlist ekki upp aftur. Gott er að láta ljós skína upp í gegnum flöskuna. Þá sést hvenær gruggið byrjar að renna fram og hægt er að stoppa í tæka tíð.