Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Tangó fyrir tvo

 

Argentína er þekkt fyrir bæði nautakjöt og tangó. Nautakjötið vegna þess hversu bragðgott og meyrt það er, ljúft undir tönn og gleðigjafi fyrir bæði bragðlauka og soltna maga. Tangóinn, sem upprunnin er í Argentínu, er dans sem tengir tvær manneskjur nánar en nokkur annar dans, bæði líkamlega og tilfinningalega. Tangóinn heillar ekki aðeins dansparið sjálft, heldur getur maður algjörlega fallið í stafi við að sjá góða dansara taka sporin. Hvað er síðan sumarlegra en að taka létt dansspor á pallinum á meðan steikin eldast á grillinu, fá sér sopa af hvítu Torrontés og færa sig svo yfir í Malbec þegar steikin er tilbúin? Já, það eru einmitt vínin frá Argentínu sem hafa náð hylli vínneytenda víða um heim en Argentína er komin í hóp  þeirra stærstu í vínframleiðslunni og framleiða bæði hvít- og rauðvín úr margvíslegum þrúgutegundum.

Þrúgurnar Malbec og Torrrontés, parið sem kynnt verður hér, má telja einkennandi fyrir argentínsk vín og sóma sér vel sem vínsendiherrar landsins.

Malbec, sem kemur upprunalega frá Cahors í Frakklandi, fluttist til Argentínu frá Bordeaux. Í Cahors er þrúgan blönduð með öðrum þrúgum. Vegna dökks litar þrúgunnar voru vínin kölluð svörtu vínin, en þau voru ekki bara dökk heldur áttu þau til að vera ansi tannísk. Segja má að helsta hlutverk þrúgunnar hafi verið að gefa víni lit. Þrúgur eru sjaldan nefndar á flöskumiðum í Frakklandi sem skýrir hve lítið var fjallað um þessa þrúgu fyrir nokkrum árum og hún svo til óþekkt.

Í Argentínu fékk Malbec aftur á móti að njóta sín og er af mörgum talinn einn sá besti í heimi, loftslagið og jarðvegurinn hentar honum einstaklega vel og dregur fram ýmis einkenni sem hafa aflað vínum úr þessari þrúgu sífellt meiri vinsælda.

Dansherran Malbec hefur dökkt yfirbragð og stæltan vöxt, virkar oft nokkuð harður og hrjúfur á sínum yngri árum, en gefi maður honum smá tíma sýnir hann á sér mýkri hliðar. Um æðar hans rennur dökkur kröftugur þrúgusafi með keim af kirsuberjum, jarðarberjum og plómum og á stundum má greina mintu og krydd. Vanillu og ristaða eikartóna má svo finna í þeim reynslumeiri en þeir yngri verða að láta sér nægja ferskan berjablæ.

Malbec hentar einstaklega vel með rauðu kjöti eins og nautasteik og lambakjöti, grillsteikum, ostum og jafnvel pasta í rauðri sósu. Það er sama hvað meðlætið er, það er fátt sem slær hann út af laginu. Það er greinilegt hver stjórnar dansinum, að sjálfsögðu Malbec.

Torrontés, dansfélagi Malbec, er aftur á móti rótgróinn Argentínubúi. Hún er ljós yfirlitum, hressandi og fersk í fasi. Það sem einkennir hana þó einna mest er ilmurinn sem ekki fer fram hjá manni þegar maður er nálægt henni eða, ég tala nú ekki um, ber hana að vörum sér. Ungfrú Torrontés notar gjarnan dágóðan skamt af ilmefnum, sem minna á rósir, jasmínu og önnur blóm, oft með netta kryddundirtóna. Þessi ilmeinkenni minna gjarnan á aðrar þrúgur eins og Gewurztraminer eða Muscat, sem er eðlilegt þar sem hin Evrópska Muscat er að því að sumir vilja halda fram fjarskyldur ættingi Torrontés. 

Torrontés hefur frísklegt ávaxtabragð með fínlega hunangs og kryddtóna sem hressa upp á samkomur þar sem spjallað er yfir smáréttum og yfirbragðið þarf að vera létt og skemmtilegt. Torrontés leiðist heldur ekki með krydduðum indverskum og asískum mat. Ekki má gleyma að þetta eru frábær vín fyrir minni hittinga svona til að hressa upp á talandann, sumir kalla það ísbrjót.

 

Palli vínráðgjafi

Báðar þrúgurnar Malbec og Torrontés eru verðugir fulltrúar argentískra vína og vel þess virði að kynna sér þau af eigin raun.

Páll Sigurðsson,

vínráðgjafi

Grein birt í Vínblaðinu, 9.árg. 2.tbl. júní 2011