Þegar talað er um mat frá Argentínu kemur nautakjöt strax upp í hugann og þá gjarnan grillað. Maður sér fyrir sér gauchos, en það kallast argentínsku kúasmalarnir, þeysast um grösugar slétturnar rekandi nautgripina. En það er einnig rík hefð fyrir að grilla eða elda heilu lambaskrokkana yfir grilli eða opnum eldi. Asado, eða barbecue, er vinsælt og er þá kjötið lítið kryddað og helst salt til að kalla vel fram hið góða kjötbragð. Þegar landsmenn grilla eru gjarnan pylsur með á grillinu, ekki pylsur eins og við þekkjum heldur kryddaðar svínapylsur eða chorizo og eins eru blóðpylsur vinsælar. Annars er argentínska eldhúsið undir töluverðum áhrifum frá evrópu þó þeirra útfærsla sé svolítið önnur.
Empanadas
Eru fylltar bökur gjarnan með skinku, osti eða annari kjötfyllingu en bökurnar eru þó heldur minni en við eigum að venjast. Fyrir páskahátíðina er hefð fyrir því að fylla þær með túnfiski eða þorski. (sjá uppskrift neðar)
Milanesas
Er vinsæll skyndibiti í Argentínu en þá er þunnskornu kjötstykki velt upp úr raspi og síðan steikt og minnir þetta á þýskt
schnitzel.
Fogaza
Minnir á ítalska focaccia brauðið og er gjarnan borið fram með osti.
Rrovoleta
Hugsið ykkur; góður skammtur af steiktum bræddum osti kryddaður með oregano namm...
Pasta og pizzur
Þetta er mjög vinsæll matur í Argentínu en pastað er borið fram með meiri rjóma- eða kjötsósum. Pizzurnar eru einnig brauðmeiri en þær ítölsku.
Dulce de leche
Þegar komið er að eftirréttum slær fátt þennan út en hann er gerður úr niðursoðinni karmellukenndri mjólk og til eru mörg afbrigði af þessum rétti sem landsmenn elska.
Empanada
- 1 1/2 bolli hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 1/2 bolli palmín jurtafeiti
- 1/3 bolli mjólk
Blandið hveiti, lyftidufti og salti saman í stórri skál. Blandið Palmín feitinni samanvið (gott er að nota til dæmis tvo hnífa til að
blanda harðri feitinni við þurrefnin) þar til áferðin líkist grófu mjöli. Blandið smá mjólk samanvið blönduna. Hrærið í með gaffli þar til blandan tollir saman, deigið á ekki að vera klístrað. Hnoðið deigið með smá hveiti þar til það myndar mjúkan bolta. Látið deigið hvílast í ísskáp í minnst hálftíma en helst yfir nótt. Skiptið deiginu í margar litlar kúlur á stærð við golfkúlur og fletjið þær út í 15 cm hringi. Setjið matskeið af uppáhaldsfyllingunni ykkar á hverja köku, penslið kantana með vatni og lokið þeim þannig að þær myndi hálfmána. Notið gaffal á barmana til að loka þeim eða þrýstið með fingrunum. Bakið í ofni eða djúpsteikið þar til bökurnar fá á sig fallegan lit.
Kjúklingafylling
- 2-3 kjúklingabringur
- 1 lárviðarlauf
- 1 kjúklingakraftsteningur
- ¼ bolli olía
- 2 stórir laukar, í litlum bitum
- 1 msk. paprikuduft
- 1 tsk. kúmen
- ½ tsk. chiliduft
- 1,5 msk. sykur
- Salt og pipar
- 3 harðsoðin egg, í litlum bitum
- ½ bolli grænar ólífur, í bitum
- 1 eggjarauða
- 1 msk. Vatn
Setjið kjúklingabringurnar í pott ásamt kjúklingakraftinum og lárviðarlaufinu og bætið vatni í svo það fljóti yfir bringurnar.
Sjóðið á lágum hita í 15-20 mínútur, látið kjúklinginn kólna í soðinu. Skerið kjúklinginn niður í litla bita og bleitið upp í honum með 1-2 msk. af soðinu. Hitið olíu á pönnu og bætið á hana lauk, paprikudufti, kúmen, chilidufti, sykri og bragðbætið með salti og pipar eftir smekk. Steikið á lágum hita í 15-20 mínútur þar til laukurinn er glær. Takið pönnuna af hitanum og hrærið kjúklingnum, eggjunum og ólífunum saman við. Fyllingin er best ef hún fær að bíða í ísskáp yfir nótt.
Nautahakksfylling
- 500 g nautahakk
- 1 laukur
- 1 hvítlauksrif
- 2 harðsoðin egg, skorin í litla bita
- 1/2 bolli rúsínur
- Salt og pipar
- Olía til steikingar
Steikið hakkið á pönnu ásamt lauki og hvítlauki og hellið afgangs fitu frá. Bætið eggi og rúsínum í blönduna.
Argentínumenn rækta síðan sín frábæru vín sem smellpassa með þessum mat, þá ekki síst grilluðu nauti.
Júlíus Steinarsson,
vínráðgjafi
Grein birt í Vínblaðinu, 9.árg. 2.tbl. júní 2011