Rioja er eitt af rótgrónustu víngerðarsvæðum Spánar og í hillum Vínbúðanna, enda vöruskipti með fisk og vín ein af ástæðunum fyrir stofnun ÁTVR.
Upp úr miðri 19. öld flúðu víngerðarmenn (Murrieta og Riscal) til Bordeaux vegna borgarastyrjaldar á Spáni. Við heimkomu fluttu þeir með sér bæði þekkingu og tunnur sem kallast barrique og eru 225 lítrar. Þannig hófst tunnuþroskunarhefðin sem var lengst af bundin við Amerískar tunnur. Síðari ár hafa tilraunir framleiðenda einnig falið í sér franskar tunnur og blandaðar tunnur þar sem bæði frönsk og amerísk eik er notuð.
Rioja var eitt fyrsta víngerðarsvæði á Spáni sem stofnaði Consejo Regulador, sem er einskonar eftirlitsaðili með framleiðslu. Þá voru einnig lögfestar reglur sem segja meðal annars til um lágmarks þroskunartíma víns, bæði í tunnum og flöskum. Auðvelt er að þekkja muninn á milli þessara þroskunartíma á þeim upplýsingum sem finna má á flöskumiðanum; Crianza, Reserva og Gran Reserva.
Þegar skoðuð eru vinsælustu rauðvín Rioja í flöskum kemur í ljós að þar eru heilmargar tegundir sem bera Reserva merkinguna. En þrátt fyrir að löggjöfin leggi línurnar fyrir stílinn, þá getur verið ágætis munur á milli framleiðenda.
Samkvæmt löggjöfinni þurfa þau rauðvín sem merkt eru með Reserva merkingunni að vera að lágmarki þriggja ára gömul þegar þau eru sett á markað, þar af þarf að vera að minnsta kosti eitt ár á tunnu. Nokkuð einfalt kannski, en það er auðvitað alltaf hægt að flækja málin og til að einfalda þau eru nokkur atriði sem framleiðendur geta gert fyrir sinn eigin stíl.
Berin
Hlutfall berjategunda í blönduðu víni getur verið breytilegt á milli framleiðenda sem og á milli ára. Eins getur framleiðandi valið á milli svæða, sem getur einnig gefið af sér mismunandi einkenni í vínið.
Framleiðslan - gerjunin
Framleiðandi getur valið að gerja vínið í tunnu eða tanki og getur hlutfallið þar á milli verið mismunandi. Eins skiptir hitastig gerjunar og lengd hennar máli fyrir bragðeinkenni vínsins.
Þroskunin
Þó lágmarksþroskun sé krafist fyrir Reservur, þá getur framleiðandi ákveðið að lengja þroskunina, bæði í tunnum eða flöskum, allt eftir því hvernig stíl hann vill ná fram. Þá skipta tunnugerðir einnig máli. Nýjar tunnur gefa af sér meiri bragðeinkenni, mismunandi ristun á tunnum gerir það líka sem og ólíkar tegundir viðar sem notaður er í tunnurnar.
Þetta eru bara nokkur atriði sem geta skipt máli fyrir stíl hvers og eins framleiðanda og áhugasamir geta kafað mun dýpra í fræðin. Það er þó ljóst að Reserva frá Rioja er ekki það sama og Reserva frá Rioja.
Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi