Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Cava

12. júlí er alþjóðlegur Cava dagur. Cava er spænskt freyðivín framleitt með hefðbundinni aðferð (e. Traditional method). Hefðbundin aðferð hefur einnig verið nefnd kampavínsaðferð, enda á hún uppruna sinn að rekja til kampavínshéraðsins. Í hefðbundinni aðferð fer seinni gerjun freyðivínsins fram í flöskunni, en þessi aðferð gefur gjarnan af sér meiri gertóna í bragðeinkenni vínsins. Gertónana má þekkja í bragðlýsingum sem tertubotn, alls kyns bökur, vínarbrauð og kremkex, svo eitthvað megi nefna.  

Cava er stíll freyðivíns sem má framleiða á vínræktarsvæðum Spánar, þó langstærsti hluti framleiðslunnar, eða yfir 95%, sé í Penedés rétt fyrir utan Barcelona. Berjategundirnar Macabeo, Parellada og Xarel.lo bera uppi þungann af Cava framleiðslunni, en fyrir örfáum árum síðan var notkun Chardonnay og Pinot Noir einnig leyfð.  

Þó mest allt Cava sé merkt einfaldlega sem Cava, þá er einnig hægt að finna Cava Reserva og Cava Gran Reserva, sem báðar fela í sér lengri tíma í seinni gerjun sem skilar sér í þróttmeira bragði. Árið 2022 var svo reglum breytt til að gefa Cava framleiðslu í betri gæðum hærra undir höfði. Cava de Guarda er fyrir þau freyðivín sem fylla hefðbundna Cava flokkinn á meðan Cava Reserva, Cava Gran Reserva og Cava de Paraje Calificado (búgarðsvín) tilheyra Cava de Guarda Superior.  

Cava er ekki aðeins hægt að nota til að skála með heldur er frábært að para freyðivín með mat. Þannig er hentar Cava vel með skelfiski, salötum og hvers kyns tapasréttum, eins og til dæmis spænskri tortillu, og svo má að sjálfsögðu ekki gleyma paellu. Cava freyðivín fást í mismunandi sætleika og er það eftir smekk hvers og eins hvar bragðlaukarnir liggja á sætleikaskalanum. 

Hér er hægt að finna úrval Cava í Vínbúðinni.   

 

Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi