Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Geymsla vína

Eitt af því sem fólk veltir stundum fyrir sér þegar það kaupir vínflösku er það hversu lengi sé hægt að geyma flöskuna óopnaða. ,,Vínið batnar með árunum” heyrist oft fleygt fram og á vissulega við í ákveðnum tilfellum, en sumum tegundum léttvína er þó ekki ætlað að vera geymd í mörg ár, eða áratugi.  

Frá náttúrunnar hendi eru það tannín (rauðvín), sykur, sýra og alkóhól sem fyrirfinnast í léttvínum, sem auka geymsluþol vínanna. Það er þó helst bragðeinkenni vínsins, ásamt tannín-strúktúr, sem breytist með árunum og þykja flóknari bragðeinkenni oftar en ekki bæta vínið. Það sem er mikilvægt í þessu samhengi er að það sé nóg af bragð- og lyktareinkennum í upphafi til að þau endist öll þau ár sem vínið á að geymast. Þannig er hættan á því að vín sem eru lyktar- og bragðdauf verði eftir því sem árin líða enn daufari og á endanum er það þá helst alkóhól, sykur og/eða sýra sem stendur eftir. Þau vín henta síður til að geyma til lengri tíma. 
    
HVERNIG ER BEST AÐ GEYMA VÍN? 
Það skiptir miklu máli hvar og hvernig vín eru geymd til að minnka líkur á að geymslan skemmi vínið. Léttvín eru jú matvara og eiga hættu á því að skemmast eins og önnur matvara. Það eru kannski ekki allir sem hafa kost á því að geyma vínið sitt í sérstökum kælum eða hafa aðgengi að ákjósanlegum kjöllurum. Þá er um að gera að finna stað þar sem aðstæður eru hentugastar. 

Sólarljós og litur á flöskum 
Sólarljós, eða UV geislar, eru slæm fyrir léttvín. Sólarljósið veldur því að vínið skemmist og þróar með sér bragðeinkenni sem eru síður þeim til framdráttar.  
Til að varna skemmdum á vínum vegna sólarljóss er því best að geyma þau á stað þar sem sólarljós nær ekki til þeirra. Það nær líka til þess þegar vínum er skellt út á svalir eða pall til að kæla, þá er mikilvægt að passa upp á að sólarljós nái ekki að skína á flöskurnar. 
Litur á gleri skiptir máli í þessu samhengi, en glært gler ver vínið ekkert fyrir skaðsemi sólargeisla á meðan grænt gler hefur einhverja UV vörn. Brúnt gler þykir best hvað þetta varðar og hefur mestu UV vörnina fyrir vínið.  

Hitabreytingar 
Miklar hitabreytingar, eða sveiflur á hitastigi, eru ekki góðar fyrir vín og því best að geyma flöskur á stað þar sem hitastigið er stöðugt. Kjörhitastig er í kringum 12-14°C.  

Liggja á hliðinni - rakastig  
Best er að geyma flöskur sem lokaðar eru með korktappa á hliðinni. Þannig viðheldur vínið raka korksins sem þýðir að hann þornar síður upp og hleypir súrefni inn í flöskuna. Súrefnið leiðir til þess að vínið oxast og skemmist. Rakastig þarf líka að vera stöðugt og best er að flaskan sé ekki geymd á of þurrum stað.  
 
Titringur 
Titringur hefur ekki góð áhrif á vín til lengri tíma, svo best er að finna stað sem er ekki tengdur til dæmis rafmagnstækjum sem titra. 
 
Ef þið eruð að leita að vínum til að geyma til lengri tíma, þá hvetjum við ykkur eindregið til að ræða við starfsfólk okkar sem getur bent ykkur á þau vín sem henta. 


Berglind Helgadóttir
vínsérfræðingur