Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Pinot Grigio/Pinot Gris

Undanfarin ár hafa vinsældir Pinot Grigio aukist umtalsvert, ekki aðeins á Íslandi heldur einnig á heimsvísu.  

Pinot Grigio/Pinot Gris er náskyld Pinot Noir þrúgunni og þrátt fyrir að öllu jöfnu séu búin til hvítvín úr berjunum, þá eru berin rauðleit á lit. Grái Pinot-inn gengur undir ýmsum nöfnum, allt eftir því hvar hann er framleiddur en það er ástæðan fyrir mismunandi nöfnum, þó reyndar mismunandi klón gefi af sér örlítið ólíkari vín. Þannig heitir berjategundin Pinot Grigio á Ítalíu, Pinot Gris í Frakklandi, Ruländer og Grauburgunder í Þýskalandi. Í nýja heiminum, svokallaða, getur svo heitið sem notað er á flöskumiðann gefið til kynna hvernig stíllinn er. Því í grunninn þá gefur þessi berjategund af sér tvo tiltölulega ólíka stíla, þrátt fyrir að bera nánast sama nafnið. 

 

Pinot Grigio 

Ítalir framleiða langmest af Pinot Grigio í heiminum og þó að þrúgan sé ræktuð víða á Ítalíu, þá er Veneto langstærsta svæðið. Vínin sem eru framleidd í þessum stíl eru að öllu jöfnu fersk, létt og með bragðeinkenni epla, peru og sítrusávaxta og í sumum tilfellum létta blómlega tóna. Vín í þessum stíl henta vel með léttari mat eins og salötum, hvítum fisk, léttari pastaréttum og eitt og sér. 

 

Pinot Gris 

Alsace er höfuðvígi Pinot Gris í Frakklandi en þar eru haustin löng og þurr svo berin fá gjarna að hanga lengur en það gerir að verkum að vínin hafa öðruvísi bragðeinkenni. Þannig er algengara að þessi vín hafi einkenni steinávaxta, eins og ferskju og apríkósu, jafnvel meiri blómlegri einkenni og sum hver með hunangstóna. Pinot Gris vínin frá Alsace eru að öllu jöfnu með smá sætu og þessi vín henta vel í að para við til dæmis sterkkryddaðan mat, feitan og reyktan mat, bragðmeiri osta og bleikan fisk.   

Til að finna vín úr þessari berjategund er hægt að nýta sér leitarvélina hér á vinbudin.is og velja til dæmis eina berjategund, og/eða svæði.