Nú þegar rykið er rétt nýsest eftir jólin er ekki seinna vænna að huga að þorranum og hvað sé hægt að drekka með þorramatnum. Þessum súra það er að segja, en sýran er mjög afgerandi þáttur í bragðbyggingu matarins.
Þorrabjór er alltaf klassískt val með súrmat og reyndar þorramat yfir höfuð. Hægt er að finna þorrabjóra í ýmsum stílum, þó flestir séu kannski heldur ristaðri öl og margir hverjir stout eða porter, þá er einnig að finna IPA bjóra.
Gott ákavíti er vel þekkt að sé á boðstólum á þorrablótum og hentar vel með súrmat. Flestir geyma það í frysti og bera fram vel kælt, en ef enginn frystir er til taks, til dæmis á þorrablótum, þá er vel hægt að hella stofuheitu ákavítinu í staupglas. Hér er góð grein sem fjallar um ákavíti og hér er listi yfir öll þau ákavíti sem eru í sölu í Vínbúðunum.
Ef léttvín verður fyrir valinu í stað bjórs eða ákavítis þá er hálfsætur Riesling góður valkostur. Há sýran í Rieslingnum og sætumagnið parast vel með súrmatnum.
En fyrir þá sem eru ekkert fyrir súrmatinn þá má alltaf skoða hvaða vín henta vel með lambakjöti og kemur vöruleitin sér þá vel.
Að endingu er alltaf gott að hafa í huga að best er að velja sér drykk sem manni þykir góður því þó svo að þorramatur sé tími þar sem verið er að smakka ýmislegt sem kannski að öllu jöfnu margir borða ekki, þá má alveg finna drykkjarföng sem henta eigin smekk.
Berglind Helgadóttir DipWSET
Vínráðgjafi