Þegar kemur að því að velja vín eða drykk við hæfi með hátíðarmatnum getur reynst snúið að vita hvar á að hefja leitina. Þegar para á saman vín og mat, hvort sem það er jólamaturinn eða annar matur, eru ákveðin atriði sem gott er að hafa í huga.
Í fyrsta lagi er alltaf ágætt að finna sér eitthvað sem maður sér fram á að finnast gott að drekka. Þó að alltaf sé talað um pörun kjöts og rauðvíns, þá hentar það vissulega ekki ef maður drekkur ekki rauðvín. Það þýðir þó ekki að þá neyðist maður til að drekka einungis vatn með matnum, því það eru ýmsir möguleikar aðrir í boði eins og hvítvín, bjór eða freyðivín. Já, ég sagði það (eða skrifaði reyndar); freyðivín! Kampavín, Crémant og Cava reynast ágætis matarvín og Asti hentar vel með reyktum mat eins og hangikjöti og hamborgarhrygg.
Aðalrétturinn ræður oft hvaða tegund víns verður fyrir valinu, en það skiptir líka máli að taka til greina meðlæti og kryddun því hráefni eins og sítróna, rjómi, sveppir og sykur getur haft áhrif á hvernig við upplifum vínið. Vöruleitin á vinbudin.is getur hjálpað ykkur að afmarka vöruúrval Vínbúðanna að ykkar óskum og svo er um að gera að spyrja starfsfólkið.
Í Vínbúðunum starfar frábært starfsfólk sem er boðið og búið að veita góð ráð við pörun víns og hátíðarmatar. Vínráðgjafar eru í nokkrum búðum og þekkjast best á svörtu svuntunni.
Það hjálpar starfsfólki Vínbúðanna heilmikið við að veita góð ráð ef þið getið upplýst þau um hvaða vín eða drykkir ykkur finnist góðir. Ef þið eigið líka ykkar uppáhalds svæði eða berjategund þá nýtast þær upplýsingar vel við að lóðsa ykkur um vínheima. Einnig er ágætt að hafa í huga á hvaða verðbili flaskan á að vera, því í hillum Vínbúðanna eru flöskur á allt frá rúmum þúsund krónum og upp í tæpar 160 þúsund krónur.
Besta ráðið í pokahorninu geymi ég þar til síðast: gott er að vera tímanlega í kaupunum til að reyna að forðast raðir og allt óþarfa jólastress og geta gengið inn í jólin í hátíðarskapi.
Gleðilega hátíð!
Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi