Með hækkandi sól sækjum við landar í léttari vín, hin þungu og bragðmiklu rauðvín fá yfirleitt hvíld þar til haustar á ný. Sumarið er sá tími sem hvítvínin njóta sín hvað best, ilmandi af ferskum ávöxtum, hunangi og blómum.
Með vor í hjarta og sól í sinni er auðvelt að gleðjast yfir glasi af Riesling, jafnt þurrum sem hálfsætum. Þrúgan er sannkölluð snædrottning þrúguheimsins, svolítið skörp og súr í bragði en glettilega góð samt. Fá hvítvín henta jafn vel og Riesling við allskyns tækifæri þar sem fólk kemur saman. Hálfsæt Riesling eru frábær kjaftavín, það er að segja góð með léttu spjalli þar sem alvara lífsins er ekki að þvælast of mikið fyrir. Þessu til viðbótar eru vín úr þessari þrúgu frábær matarvín og henta með forréttum, aðalréttum, ostum og eftirréttum. Það eru ekki margar þrúgur sem ráða við þetta allt.
Þrúgan gefur af sér fersk, jafnvel sýrurík og flókin vín. Riesling er ein af fáum þrúgum, sem hægt er að gera úr jafnt frábær sætvín sem þurr. Hún hefur það mikla sýru að hún gefur gott jafnvægi í sæt vín svo þau virka létt og frískandi.
Þegar Riesling-vínin sýna sitt besta eru þau með ferska sýru, safarík, blómleg, steinefnakennd og með gott sambland af léttleika og krafti. Næstum alltaf má finna ilm og bragð af sítrus, eplum, blómum og hunangi. Einnig koma upp ávextir eins og ferskjur og apríkósur. Olíukeimur sem oft er áberandi, kemur yfirleitt með aldrinum, en þó eru til vín sem fá þennan karakter
strax.
Riesling þrúgan á uppruna sinn að rekja til Rheingau í Þýskalandi og hefur ásamt Chardonnay verið álitin ein besta hvítvínsþrúga heimsins. Þrátt fyrir að vera marglofuð af vínáhugamönnum og víngerðarmönnum hafa vín úr þrúgunni ekki náð hylli hins almenna neytanda, en þrúgan hefur átt í harðri Chardonnay. Kannski á hennar tími bara eftir að koma. Það hlýtur bara að vera því vín úr Riesling þrúgunni geta orðið mjög langlíf.
Harðger vínviðurinn þolir vetrarhörkur og frost betur en nokkur annar, sem gerir hann heppilegan til ræktunar á norðlægum svæðum eins og Þýskalandi.
Þrúgan er ræktuð á nær öllum vínsvæðum Þýskalands. Áhersla er þar lögð á ferskleika vínsins, berjakeiminn og jafnvægið á milli sætleikans og sýrunnar. Sé þrúgan skorin upp of snemma getur hún haft skarpa óþroskaða sýru.
Flest þýsk Riesling vín í hillum Vínbúðanna eru hálfsæt, en ef vandlega er leitað má finna þurr hágæðavín.
Riesling-vín frá Alsace eru ólík þýskum vínum, á meðan Þjóðverjar sækjast eftir ávaxtakeimi og sætleika vilja menn í Alsace kraft og styrk. Vínin þar eru þurrari, ilm og bragðmikil, feitari og alkóhólmeiri. Þessi vín sem lýst hefur verið sem frönskum vínum með þýsku ívafi eru frábær matarvín, ég sem einlægur aðdáandi Alsace vína, get fullvissað ykkur um það að Riesling og til dæmis asískur matur er nokkuð sem vert er að prófa. Ég hafði reyndar grillaðar kjúklingabringur með asískum tónum í matinn um daginn og að sjálfsögðu var Riesling (ég segi ekki hvaðan) hafður með. Vínið og kjúklingabringurnar hreinlega féllust í faðma í munnholinu. Afsakið útúrdúrinn ég gleymi mér alltaf þegar Alsace er annarsvegar.
Það er þýskum innflytjendum svo að þakka að Riesling þrúgan er einnig ræktuð í Nýja heiminum, en þeir fluttu hana með sér til Kaliforníu og eins Ástralíu.
Riesling var langvinsælasta hvítvínsþrúgan í Suður-Ástralíu áður en Chardonnay náði sínum miklu vinsældum. Ástralar hafa tileinkað sér hugmyndafræði Alsacemanna og ná þeir jafnháu eða hærra alkóhólmagni. Markmiðið er að framleiða sterkilmandi vín með miklum berjakeim en litlu sykurinnihaldi. Vínin eru oft með nettan olíukeim.
Frá Nýja Sjálandi koma vín með ferska sýru og suðrænan ávaxtakeim, steinefna einkennin leyna sér yfirleitt ekki.
Riesling frá Bandaríkjunum eru svo líkari þeim þýsku, hálfsæt, með ferska sýru, epla og apríkósukeim.
Riesling frá Chile er farið að láta sjá sig í Vínbúðunum, þurr og fersk vín með rétt einkenni. Ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með þau og ekki nema von því Chilebúar hafa ræktað þessa þrúgu lengi.
Ég vona svo að þetta spjall mitt verði til þess að þið bragðið aðeins á Riesling í sumar og kynnið ykkur töfra þessara vína. Það gæti orðið nett ferðalag um heiminn í nokkrum glösum á nokkrum mánuðum.
Njótið vel í hófi.
Páll Sigurðsson, vínráðgjafi
(úr Vínblaðinu, 2.tbl.8.árg.)