Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vöruvalskerfið

Vöruvalskerfi Vínbúða ÁTVR samanstendur af eftirtöldum þáttum

 
  • Söluflokkum, sem setja ramma um innkaup og dreifingu á vörum.
  • Vínbúðum, sem skipt er í mismunandi stærðarflokka með hliðsjón af sölumagni hverrar Vínbúðar, og sem eru líka að nokkru leyti sérhæfðar, sumar eru notaðar til að prófa nýjar vörur og í sumum er verulega aukið vöruúrval af tilteknum vöruhópum.
  • Reglum, t.d. um árangursviðmið vöru og um dreifingu vöruúrvals.

Söluflokkar

Söluflokkar ÁTVR fyrir áfengi eru fimm:
  • Kjarni
  • Reynsluflokkur
  • Sérflokkur
  • Tímabilsflokkur
  • Sérpantanir
Tilgangurinn með ólíkum söluflokkum er að gera ramma um innkaup og dreifingu á vörum sem tekur mið af eftirspurn viðskiptavina annars vegar og ástæðu þess að vörur eru í sölu.
 

 

Reynsluflokkur

Kjarni

Sérflokkur

Tímabilsflokkur

Sérpantanir – vefbúð

Eftirspurn

Lítil

Mikil

Lítil

Mikil

Mjög lítil

Ástæða

Vettvangur birgja til að prófa nýjar vörur.

Þjónusta við viðskiptavini, eftirsóttustu vörur.

Þjónusta við viðskiptavina, fjölbreytni og gæði.

Vörur tengdar ákveðnum árstíma og aðeins fáanlegar í skamman tíma.

Þjónusta við viðskiptavini – vörur sem ekki eru fáanlegar í öðrum söluflokkum.

Dreifing

Takmörkuð við ákv. Vínbúðir.

Almenn dreifing í samræmi við eftirspurn.

Að mestu takmörkuð við ákv. Vínbúðir.

Almenn dreifing í samræmi við eftirspurn.

Aðeins fáanlegt í vefbúð.

Innkaup og birgðahald

ÁTVR kaupir af birgjum og heldur lager. Í lok reynslusölu getur ÁTVR skilað óseldum vörum.

ÁTVR kaupir af birgjum og heldur lager.

ÁTVR kaupir birgðir af birgjum. Að mestu án lagerhalds umfram það sem er í hillum Vínbúða.

ÁTVR kaupir af birgjum og heldur lager. Í lok tímabils getur ÁTVR skilað óseldum vörum.

Aðeins keypt ef viðskiptavinur pantar vöru.

Fjöldi af vörum

Um 600

Um 1000

Um 750

10 til 70 eftir tímabilum.

Ótakmarkaður fjöldi.


Reynsluflokkur

Reynsluflokkur er vettvangur fyrir birgja til að prófa að selja í Vínbúðinni hvaða vöru sem er, að því gefnu að varan uppfylli lagaskilyrði og standist gæðaeftirlit. Lengd reynslusölu er 12 mánuðir. 
Verði eftirspurn nægileg færist varan í kjarnaflokk. Vara sem nær ekki í kjarna getur færst í sérflokk ef hún er talin með einhverjum hætti auka fjölbreytni eða gæði vöruúrvals. 
Vara sem hættir í reynslusölu getur komið aftur í reynslusölu að liðnum 12 mánuðum og hana má bjóða til sölu í vefbúð.

Kjarni

Í kjarna eru vörur sem njóta mestrar eftirspurnar. Vörur í kjarna fá dreifingu í fleiri Vínbúðir er vörur í öðrum söluflokkum.
Vörur komast í kjarna eftir árangursríka reynslusölu. Vara sem kemur ný í kjarna er þar í a.m.k. 12 mánuði, en eftir það þarf hún að standast árangursviðmið. Ekki eru tímamörk á því hve lengi vara getur verið í kjarnaflokki.
Vörufjöldi í kjarna er takmarkaður þannig að þar geta verið hverju sinni tiltekinn fjöldi af söluhæstu vörum í hverjum flokki. Vörur sem eru utan þessa tiltekna fjölda hætta í kjarna. Vara sem fellur úr kjarna getur, óski birgir þess, hafið reynslusölu á ný.

Sérflokkur

Þegar vara lýkur reynslusölu án flutnings í kjarna er skoðað hvort hún auki á einhvern hátt fjölbreytni eða gæði vöruúrvals Vínbúðarinnar. Ef metið er svo að varan geri það, þá er hún færð í sérflokk. Vara sem þannig færist í sérflokk er þar í a.m.k. 12 mánuði, en eftir það þarf hún að standast árangursviðmið.
Sérflokkur er einnig notaður sem n.k. öryggisnet fyrir vöruúrval. Reynt er að tryggja að þar séu vörur úr tilteknum flokkum, t.d. hvað varðar upprunastað, hráefni, verð o.fl. þannig að sem best sé tryggt að nægileg fjölbreytni og gæði séu til staðar í heildarvöruúrvali Vínbúðanna.
Að jafnaði eru vörur ekki lengur en 5 ár í sérflokki. Vínbúðin auglýsir einnig eftir vörum til sölu í sérflokki.
Vörur í sérflokki eru að jafnaði í takmarkaðri dreifingu í einni eða fáum Vínbúðum.

Tímabilsflokkur

Í tímabilsflokki eru vörur sem aðeins eru fáanlegar á ákveðnum tímum árs, svo sem þorra, páskum, jólum, október, sumar og vetur.
Sala í tímabilsflokki stendur í takmarkaðan tíma, að jafnaði 4 til 7 vikur, en vetrar- og sumartímabil eru 4 mánuðir.

Sérpantanir

Sala á sérpöntunum er eingöngu í gegnum vefverslun. Í vefverslun geta birgjar skráð vörur sem ekki eru á sama tíma til sölu í öðrum söluflokkum. Engin takmörk eru á fjölda vörutegunda sem þar má skrá.

Skipulag á vöruúrvali Vínbúða

Vöruúrval hverrar Vínbúðar er samsett af þremur þáttum, grunnvöruúrvali, sérhæfðu vöruúrvali og staðbundnu vöruúrvali.
Grunnvöruúrval er hið sama fyrir allar Vínbúðir í sama stærðarflokki, en sérhæft og staðbundið vöruúrval er sérstakt fyrir hverja Vínbúð.
Grunnvöruúrval og sérhæft vöruúrval er endurskoðað þrisvar á ári, í janúar, maí og september. Staðbundið vöruúrval tekur breytingum í samræmi við óskir Vínbúða.

Grunnvöruúrval

Grunnvöruúrval er að jafnaði stærsti hluti vöruúrvals hverrar Vínbúðar og sá hluti vöruúrvalsins sem er eins fyrir Vínbúðir í sama stærðarflokki. Í grunnvöruúrvali eru söluhæstu vörur og sömuleiðis vörur sem taldar eru æskilegar til að tryggja breitt og heilsteypt vöruúrval í hverjum stærðarflokki Vínbúða. 
Sjá reglur um grunnvöruúrval.

Sérhæft vöruúrval

Sérhæft vöruúrval er viðbót við grunnvöruúrval sem þjónar þeim tilgangi að aðlaga vöruúrval Vínbúðar að eftirspurn og aðstæðum í hverri Vínbúð og þegar við á að bjóða upp á meira exklúsíft sortiment en að jafnaði fæst í grunnvöruúrvali.
Í sumum Vínbúðum er sérhæft vöruúrval lítil viðbót við grunnvöruúrval. Annars staðar er sérhæft vöruúrval umtalsverð viðbót, Í sérverslun þar sem áhersla er lögð á mikið úrval af tilteknum vöruflokkum, þá er vöruviðbót jafnvel meirihluti af heildarvöruúrvali Vínbúðir.
Sjá reglur um sérhæft vöruúrval.

Staðbundið vöruúrval

Staðbundið vöruúrval samanstendur yfirleitt af u.þ.b. 30 vörutegundum sem Vínbúðir óska sérstaklega eftir til að mæta staðbundinni eftirspurn.
Í fáeinum tilvikum gefa aðstæður tilefni til að auka staðbundið vöruúrval. Slík aukning getur t.d. tengst tímabundnum uppákomum (dæmi Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum) eða aukið sveigjanleika líkt og er gert þegar Vínbúðir fá að velja aukategund úr tímabilsflokki eða verið gerð vegna þess að mikil staðbundin eftirspurn eftir vörum tiltekins framleiðanda skerðir möguleika Vínbúðar á að þjóna annarri staðbundinni eftirspurn.
Sjá reglur um staðbundið vöruúrval.

Söluárangur

Söluárangur vöru er mældur út frá framlegð, sem er reiknuð sem uppsöfnuð álagning ÁTVR (13,74% af söluverði víns og bjórs, 9,65% af söluverði sterks áfengis). Framlegð af samanlagðri sölu hverrar tegundar sl. 12 mánuði ræður ákvörðun um dreifingu vöru í Vínbúðir, ákvörðun um færslu vöru úr reynsluflokki í kjarna og hún ræður ákvörðun um brottfellingu úr sölu.
Viðmið um veru í söluflokk eru sett fram í reglum um árangursviðmið söluflokka. Þar er yfirleitt um að ræða fjöldaviðmið innan hvers vöruhóps í hverjum söluflokki þar sem ákveðinn fjöldi af framlegðarhæstu vörum heldur áfram í sölu, en vörur sem hafa ekki nægilega framlegð falla úr sölu. Viðmið um færslu í kjarnaflokk er einnig að finna í reglum um árangursviðmið söluflokka.
Viðmið um dreifingu vöru í Vínbúðir er að finna í reglum um grunnvöruúrval. Þar er aftur tiltekinn sá fjöldi af framlegðarhæstu vörum hvers vöruhóps sem hlýtur dreifingu í tiltekinn vínbúðarflokk og svo koll af kolli fyrir hvern stærðarflokk Vínbúða.
Framlegð vöru er birt á birgjavef í svokallaðri framlegðarskrá. Þar geta birgjar fylgst með hvernig þeirra vörum gengur og gert tímanlegar ráðstafanir ef að dreifing vöru eykst eða minnkar eða þeir sjá fram á að missa vöru úr sölu.
 

Stærðarflokkar Vínbúða

Vínbúðum er skipt í 10 stærðarflokka þar sem ákveðinn er lágmarksvörufjöldi, frá 50 tegunda lágmarki í minnstu Vínbúðum í 1500 tegunda lágmark í stærri Vínbúðum. Ákvörðun um stærðarflokk hverrar Vínbúðar tekur fyrst og fremst mið af sölu, sem oftast er í beinu sambandi við íbúafjölda á áhrifasvæði Vínbúðar. Ef sala í Vínbúð breytist getur Vínbúð færst á milli stærðarflokka. Yfirleitt eru breytingar aðeins gerðar upp á við, þannig að Vínbúð færist í stærri flokk og vöruúrval eykst.
Sá vörufjöldi sem stærðarflokkur Vínbúðar tryggir tilheyrir grunnvöruúrvali. Til viðbótar við grunnvöruúrval hafa Vínbúðir staðbundið vöruúrval og sérhæft vöruúrval og tímabundið vöruúrval.

Sjá nánar um stærðarflokka Vínbúða hér.

Kvíar

Grunnvöruúrval hverrar Vínbúða samanstendur af mismörgum vöruhópum sem kallast „kví“. Í stuttu máli þá er kví hópur af vörum sem hlýtur sömu dreifingu í Vínbúðir.
Í minnstu Vínbúðum í stærðarflokki K1 samanstendur grunnvöruúrval af einni kví, „K100“, sem telur u.þ.b. 100 vörur. Í næsta stærðarflokki Vínbúða, K2, samanstendur grunnvöruúrval af tveimur kvíum, „K100“ og „K200“, en í „K200“ eru u.þ.b. 100 vörur til viðbótar, þannig að heildargrunnvöruúrval í Vínbúðum í stærðarflokki K2 er u.þ.b. 200 vörur. Þannig fjölgar kvíum fyrir hvern stærðarflokk allt upp í „K800“ fyrir stærstu Vínbúðir.
Vínbúðir sem selja söluhæstu vörur í reynslusölu hafa kvína „R1“, en í henni eru u.þ.b. 100 vörur. Vínbúðir með allt vöruúrval í reynslusölu hafa báðar kvíar, „R1“ og „R“ en í henni eru u.þ.b. 500 vörur.
Sambærilegt kvíakerfi er einnig notað fyrir vörur í sérflokki og tímabilsflokki.