Vín í matargerð er eitthvað sem flestir þekkja, hvort sem er til að sjóða upp úr, í sósuna, marineringu eða slíkt, en einhverra hluta vegna nota færri bjór í matargerð.
Það er mjög sniðugt að nota bjór til að meyra kjöt, en þar sem sýrustig bjórs er lægra en víns, brýtur bjórinn vöðvann ekki niður eins hratt og vínið. Bjór gefur matnum einnig góðan kryddkeim og eykur á fyllingu sósunnar og þéttleika. Auðvitað er ekki sama hvaða bjór maður notar, en bragðmikill bjór gefur meira bragð, humlaríkur bjór gefur meira krydd, dekkri bjór gefur meiri hnetu-, súkkulaði- og/eða lakkrískeim.
Klassískt dæmi um notkun bjórs í eldamennsku er „dósakjúklingur“, þar sem hálffull bjórdós er sett í afturendann á kjúklingnum og hann látinn standa, með aðstoð dósarinnar, á grillinu. Maður finnur ekki fyrir bjórbragði af kjúklingnum, en bragð og áferðarmunurinn á dósakjúlla og venjulegum er samt augljós. Marinering úr dökkum bjór, eða jafnvel reyktum bjór, með lauk, hvítlauk, limesafa, smá púðursykri, tabasco og broddkúmeni, er eitthvað sem allir grillunnendur ættu að prófa.
Svo má líka nota bjór í eftirrétti! Bjór er hægt að nota í baksturinn, hvort sem er í kökur eða smákökur, og sumir hafa verið að prófa sig áfram með ís og bjór, en þá er hvort sem er hægt að nota bjórinn í ísgerðina eða ís útí bjórinn (e: beer float). Enn og aftur skiptir máli hvaða bjórstíll er notaður, og er um að gera að prófa sig áfram og vera ævintýragjarn.
Sjá uppskriftir og meira hér.
(Hluti af grein sem birtist í Vínblaðinu, eftir Magnús Traustason, vínráðgjafa)