Í gær tilkynnti ÁTVR sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og sýslumanninum á Vesturlandi um meint brot Bjórlands ehf., Brugghúss Steðja ehf. og Sante ehf. á skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt áfengisheildsölu-, áfengisframleiðslu- og áfengisinnflutningsleyfum sem sýslumennirnir hafa gefið út. Brotin felast í smásölu áfengis í vefverslunum í trássi við gildandi lög. ÁTVR telur að fyrir liggi óyggjandi sönnun fyrir brotum leyfishafanna. Með tilkynningunum var farið fram á að sýslumennirnir hæfu þegar í stað áminningarferli gagnvart þessum aðilum eins og leyfisveitanda er skylt að gera. Lög kveða á um að leyfishafi sem verður uppvís að frekari brotum á meðan áminning er í gildi skuli sviptur leyfinu um stundarsakir eða fyrir fullt og allt.
Tilkynningarnar sem afhentar voru í gær eru einn liður í áformum ÁTVR um að fá niðurstöðu í þann ágreining sem uppi er um túlkun gildandi laga um heimildir til smásölu áfengis. ÁTVR útilokar ekki að leita síðar til dómstóla vegna hinna meintu brota og krefjast eftir atvikum lögbanns á vefverslanir Bjórlands, Brugghúss Steðja og Sante.
Það er mat ÁTVR að starfræksla vefverslananna feli í sér ótvírætt ásetningsbrot gegn einkaleyfinu og grunnstoðum áfengisstefnu stjórnvalda, þar sem skýrt er kveðið á um hlutverk ÁTVR. Fram kom tillaga á Alþingi sem fól í sér að hægt yrði að selja áfengi beint til íslenskra neytenda úr innlendum vefverslunum. Þessi tillaga fékk ekki framgang og áfengisstefnunni hefur ekki verið breytt. Mismunandi skoðanir kunna að vera varðandi þá niðurstöðu en engum er þó frjálst að hunsa gildandi lög að eigin geðþótta.
ÁTVR telur mikilvægt að leiðrétta þann misskilning að mismunandi reglur gildi um innlenda aðila og erlenda þegar kemur að heimild til þess að reka vefverslun með áfengi til einstaklinga hér á landi. Öll vefverslun með áfengi beint af innlendum lager samsvarar smásölu og brýtur í bága við einkarétt ÁTVR, óháð þjóðerni þess sem stendur fyrir vefversluninni. Hins vegar er aðilum óháð þjóðerni heimilt að selja einstaklingum áfengi til einkanota, í takmörkuðu magni úr vöruhúsi sem staðsett er erlendis. Þá er það einstaklingurinn sjálfur sem stendur fyrir innflutningi áfengisins og greiðir skatta og skyldur.