Vínbúðirnar hafa nú í nokkur ár hvatt viðskiptavini til að draga úr notkun plastpoka með því að bjóða fjölbreytt úrval af fjölnota pokum á hagstæðu verði. Árið 2018 keyptu um 29% viðskiptavina plastpoka, en sala á plastpokum hefur minnkað töluvert á undanförnum árum. Á næstu mánuðum munu Vínbúðirnar hætta með hefðbundna plastpoka og bjóða frekar niðurbrjótanlega poka ásamt fjölnota pokunum.
Á þessu ári virðist engin undantekning vera á þróuninni, en sala plastpoka hefur minnkað um 13% fyrstu átta mánuði ársins. Sala á fjölnota burðapokum hefur að sama skapi aukist um 12% og þegar hafa selst 34 þúsund fjölnota pokar á árinu.
Þessa dagana stendur yfir átakið „Plastlaus september“ og er spennandi að fylgjast með því hvort viðskiptavinir muni sýna samstöðu í enn minni plastpokakaupum.
Losum framtíðina við plastið – veljum fjölnota og stefnum að því að verða plastpokalaus.
