ÁTVR veitti Umhverfisstofnun 5 millj. kr. styrk úr Pokasjóði til framkvæmda við Gullfoss. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra tók við framlagi frá ÁTVR fimmtudaginn 13. júlí í umhverfisráðuneytinu.
Þetta er í þriðja sinn sem ÁTVR hefur milligöngu um styrkveitingu til framkvæmda við Gullfoss. Með þessu er verið að fylgja eftir því framlagi sem ÁTVR hafði milligöngu um að veitt væri til framkvæmda við Gullfoss á árunum 1992-1994. Þá lögðu framleiðendur Heineken bjórs og umboðsmaður þeirra, Rolf Johansen & co, fram rúmar 5 millj. króna fyrir milligöngu ÁTVR til að bæta aðstöðu ferðamanna við Gullfoss. Fé þetta var nýtt til smíði útsýnispalls og stígagerðar.
Árið 2004 veitti pokasjóður ÁTVR Umhverfisstofnun styrk til að vinna að gerð plankastéttar á efra plani við Gullfoss sem bætir aðgengi ferðamanna að útsýnispalli fyrir ofan fossinn. Gangstéttin tekur við ofan tröppunnar sem tengir efri og neðri aðkomu og liggur að útsýnispalli fyrir ofan fossinn. Eldri gangstígurinn var tekinn að skemmast og orðinn illfær að hluta.
Á síðasta ári var lokið við að smíða um 200 metra og nú veitir ÁTVR 5 millj. kr til að ljúka við gerða plankastéttarinnar þannig að hún nái að gestastofunni.