Pokasjóður afhenti í dag Hjálparstarfi kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd 50 milljóna króna styrk til að styðja skjólstæðinga sína fyrir jólin og fram eftir vetri. Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, tók á móti framlagi Pokasjóðs fyrir hönd þessara tveggja samtaka í hádeginu í dag.
Styrkurinn er í formi gjafakorta sem gilda í matvöruverslunum innan Pokasjóðs og eru notuð með sama hætti og greiðslukort. Inneign á kortunum er annars vegar 5.000 kr. og hins vegar 10.000 kr.
Þessi úthlutun úr Pokasjóði markar þáttaskil í starfsemi hans, því þetta er í fyrsta skipti sem sjóðurinn úthlutar jafn hárri upphæð í einu lagi. Sjóðurinn hefur styrkt hundruð verkefna sl. 13 ár á sviði umhverfismála, mannúðarmála, lista, menningar, íþrótta og útivistar með upphæðum á bilinu frá nokkrum tugum þúsunda til allt að 7,5 milljóna. Að þessu sinni er eingöngu úthlutað til mannúðarmála, í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.
Vínbúðirnar standa að Pokasjóði auk annarra verslana. Sjóðurinn fær tekjur af sölu plastburðarpoka í verslunum en um helmingur af söluverði þeirra rennur í Pokasjóð. Höskuldur Jónsson situr i stjórn Pokasjóðs fyrir hönd ÁTVR.