Sala áfengis í vikunni fyrir verslunarmannahelgi var 12,2% meiri í lítrum talið en í sömu viku fyrir ári. Samtals seldust 783 þúsund lítrar af áfengi í ár en í sömu viku í fyrra seldust 698 þúsund lítrar. Sambærileg aukning er í fjölda viðskiptavina en 127 þúsund viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar í vikunni fyrir verslunarmannahelgina, en í sömu viku í fyrra komu 113 þúsund viðskiptavinir í Vínbúðirnar. Fjölgun viðskiptavina er því 12,1%.
Föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi er venjulega einn annasamasti dagur ársins í Vínbúðunum og síðastliðinn föstudagur var þar engin undantekning. 44 þúsund viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar þann dag á meðan 38 þúsund heimsóttu Vínbúðirnar sama dag fyrir ári.
Í Vínbúðinni í Vestmannaeyjum komu um 1400 viðskiptavinir föstudag og laugardag um verslunarmannahelgi í fyrra, en í ár heimsóttu um 2.100 viðskiptavinir Vínbúðina. Aukningin er því um 55% milli ára. Á Akureyri komu um 3.600 viðskiptavinir sömu daga fyrir ári en 4.300 í ár og er aukningin milli ára því um 20%.
Ef einstakir dagar í vikunni eru bornir saman má sjá að fleiri viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar mánudag, þriðjudag og miðvikudag en í fyrra. Einnig er föstudagurinn töluvert stærri en föstudagurinn í viku 31 fyrir ári.