Samkvæmt könnun sem Samstarfsráð um forvarnir lét gera í maí þá er mikill meirihluti landsmanna andvígur sölu áfengis í matvöruverslunum.
Símakönnunin var gerð dagana 9. – 13. maí 2005.
Spurt var:
Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) sölu áfengis í matvöruverslunum ef allar gerðir áfengis verða þar til sölu, einnig sterkt áfengi?
Úrtakið var 1.200 manna slembiúrtak fólks á aldrinum 18 – 67 ára af öllu landinu. Alls svöruðu 829, eða 69%.
Tveir af hverjum þremur andvígir
Nærri tveir af hverjum þremur (62,1%) segjast andvígir því að áfengi verði selt í matvöruverslunum verði sterkt áfengi þar á boðstólum. Marktækur munur greinist á milli kynja, konur eru í meiri mæli mótfallnar (72,3%) heldur en karlar (56,3%). Marktækur munur greinist eftir aldri, eldra fólk er frekar andvígt heldur en svarendur í yngri aldurshópunum og íbúar á landsbyggðinni (70,6%) eru andvígari sölu áfengis í matvöruverslunum en íbúar á höfuðborgarsvæðinu (60,9%).
Vilja ekki sterka drykki í verslanir
Í fréttatilkynningu sem barst frá Samstarfsráði um forvarnir 5. október 2005 segir:
Í símakönnun sem Gallup gerði dagana 12. til 25. janúar 2005 kom fram að 59% landsmanna vill bjór og vín í matvöruverslanir en ekki sterka drykki, aðeins rúmlega 13% þjóðarinnar eru hlynnt sölu á sterku víni í matvöruverslunum. Oft hefur verið bent á að með því að leyfa sölu bjórs og víns í matvöruverslunum verði tilveru- og rekstrargrundvöllur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins enginn. Gera megi ráð fyrir að sala bjórs og víns flytjist þá að mestu inn í matvöruverslanirnar. Sterku drykkirnir nemi aðeins um 25% heildarneyslunnar og því hæpið að hægt sé að halda úti verslunum ÁTVR einungis í kringum sölu á þeim. Ákvörðun um að selja bjór og léttvín í matvöruverslunum þýði því í raun að sterkt áfengi fylgi með.
Samstarfsráð um forvarnir taldi áhugavert að kanna afstöðu fólks til sölu áfengis í verslunum að þessum forsendum gefnum og telur nauðsynlegt að þetta sé einnig haft með þegar fólk er spurt álits á fyrirkomulagi sölu áfengis í landinu.
Samstarfsráð um forvarnir er samstarfsvettvangur sex bindindissamtaka. Þau eru: Barnahreyfing IOGT, Bindindisfélag ökumanna, Bindindissamtökin IOGT á Íslandi, Íslenskir ungtemplarar, Samvinnunefnd skólamanna um bindindisfræðslu og Ungmennahreyfing IOGT.