Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Úrvalsvín í vínbúðum

21.12.2007

Úrvalsvín í vínbúðumÚrvalsvín eru vín sem vínráðgjafar okkar hafa valið sem bestu fáanlegu vínin í vínbúðunum hverju sinni, en í flokk úrvalsvína eru valdar 100 tegundir framúrskarandi vína. Listi úrvalsvína er birtur hér á vinbud.is, og er endurskoðaður mánaðarlega.

Úrvalsvínin verða einnig sérmerkt í hillum vínbúðanna, en þeir sem kaupa úrvalsvín ganga að gæðunum vísum í hverjum flokki fyrir sig og geta smám saman komið sér upp góðri þekkingu og smekk á eðalvínum undir handleiðslu sérfræðinga.

Í flokk úrvalsvína vínbúðanna eru jafnan valin svokölluð sígild vín, sem hafa í áranna rás fest sig í sessi fyrir framúrskarandi gæði, en slík vín eru ekki mörg. Þau eru framleidd á fáum stöðum í heiminum, stöðum þar sem náttúra, vínviður, maður og hefð hafa í sameiningu náð að galdra úr jörðinni þann töfradrykk sem frábært vín er.

Markmiðið með úrvalsvínum er að koma til móts við viðskiptavini, en undanfarin ár hefur eftirspurn farið vaxandi betri vínum. Fylgist með úrvalsvínum vínbúðanna á vinbud.is og í hillum vínbúðanna.

Hér má sjá nánari upplýsingar um úrvalsvín