Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti ÁTVR í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.
Ráðherra sagði meðal annars í ávarpi sínu að ánægjulegt sé að skynja að fólk er farið að hugsa meira um hegðun sína með tilliti til umhverfismála, enda snúist þau um betri nýtni og góða umgengni allra.
„Hegðun okkar dagsdaglega skiptir máli hvort sem hún lýtur að vali á fatnaði, matarsóun, orkunotkun eða samgöngum sem allt hefur áhrif á vistsporið“.
Kuðungurinn
ÁTVR er eitt af 103 fyrirtækjum sem tekur þátt í samstarfsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif og hefur fyrirtækið sett sér loftslagsmarkmið til ársins 2030. Umhverfisstjórnun þess byggir á mælingum þar sem m.a. er notast við grænt skorkort og svokallaðan GRI stuðul (Global Reporting Initiative) við skrásetningu aðgerða í þágu samfélagsins. ÁTVR er með grænt bókhald, er þáttakandi í Grænum skrefum í ríkisrekstri og er þegar komið með öll skrefin fyrir höfuðstöðvarnar á Stuðlahálsi en innleiðing í Vínbúðum stendur nú yfir.
Fyrirtækið kolefnisjafnar allan útblástur vegna samgangna í rekstri hjá Kolviði og með því að bjóða upp á samgöngusamninga, hefur losun koltvísýring minnkað hjá starfsfólki til og frá vinnu, úr 140 tonnum í 103. Þá er fyrirmyndaraðstaða fyrir göngu- og hjólafólk við starfstöðvar. Einnig hefur verið gripið til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna flutninga. Fyrirtækið býður upp á úrval vistvænna vara, s.s. lífræn vín, og hvetur viðskiptavini sína til að nota margnota burðarpoka. Þá státar ÁTVR af háu endurvinnsluhlutfalli úrgangs sem frá fyrirtækinu kemur.
Segir í rökstuðningi dómnefndar að ÁTVR sé til fyrirmyndar í umhverfisstarfi sínu. „Það státar af öflugu og metnaðarfullu umhverfisstarfi sem ber mælanlegan árangur, auk þess sem samfélagsleg ábyrgð er fyrirtækinu leiðarljós í starfi.“
Verðlaunagripurinn, Kuðungurinn, sem ÁTVR hlaut, er að þessu sinni eftir Kristínu Garðarsdóttur leirlistamann. Þá öðlast stofnunin rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.
Á myndinni má sjá Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, Svein Víking Árnason, framkvæmdastjóra, og Sigurpál Ingibergsson, gæðastjóra, taka á móti verðlaunagripnum.