Lögreglustjórinn hefur vísað frá kæru Reynis Traustasonar gegn ÁTVR, en fyrrverandi ritstjóri Mannlífs og Ísafoldar kærði ÁTVR fyrir brot gegn banni við áfengisauglýsingum. Í kærunni er vísað til útgáfu Vínblaðsins sem og fræðslubæklings, sem gefinn var út vegna þemadaga.
Í bréfi lögreglustjóra segir að ekki sé um auglýsingar að ræða heldur upplýsingar sem ÁTVR veiti sem einkaleyfishafi í skilningi laga.
Lögreglan ásamt Lýðheilsustofnun höfðu áður kært Reyni fyrir áfengisauglýsingar í tímaritunum Ísafold og Mannlífi. Við skýrslutöku í mars síðastliðnum kærði Reynir ÁTVR fyrir brot sem hann taldi sambærilegt því sem honum væri gefið að sök.