Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vínúrval og þjónusta

17.08.2005

Viðtal við Höskuld Jónsson, forstjóra ÁTVR:

Snæfríður Ingadóttir: Í Tímariti Morgunblaðsins um helgina þá mátti lesa áhugaverða grein eftir Steingrím Sigurgeirsson. Í greininni heldur Steingrímur því fram að vöruúrval í ÁTVR sé að breytast í álíka flatneskju og oft er í stórmörkuðum austan hafs og vestan. Lítið sé af gæðavínum í ríkinu og þar sé allt fullt af keimlíkum vínum á þriggja lítra belgjum. Segir Steingrímur að það hljóti að vera hægt að gera tilteknar kröfur um fjölbreytileika til ríkisfyrirtækis sem hefur einokun á smásölu af ákveðinni vöru. Hingað er kominn Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR. Vertu velkominn.
Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR: Þakka þér fyrir, komið þið sælir áheyrendur.

Snæfríður: Höskuldur, megin inntakið í þessari grein hans Steingríms var það að ríkið fórni gæðum fyrir magn. Er þetta rétt? Höskuldur Jónsson: Já að vissu leyti og þótt ég sé í mörgu ósammála grein Steingríms að þá hefur hún þó viss atriði að geyma sem þarfnast umræðu. Það er nú svo að við erum í viðskiptum, við þurfum að selja vöru og hjá okkur gilda í höfuðatriðum sömu lögmál og í verslun almennt, að við horfum til þess hvað tiltekin vara gefur af sér fyrir fyrirtækið. Og það er nú svo að annars vegar verður þetta sjónarmið að ríkja og hins vegar er það neytandinn sem hefur atkvæðaseðil með sínum peningum, hann á valið, og hann kýs vöru með sínum peningum. Við verðum því að sinna þeirri vöru vel sem flest atkvæðin fær, sem skilar okkur mestri framlegð og það kann að bitna eða koma niður á hágæða vöru sem er dýr, selst mjög lítið og skilar okkur litlu. Það er ekki bara við heldur kaupum við vöru af heildsölunum, eða öllu heldur heildsalar þeir koma vöru sinni á framfæri við okkur, við tökum við öllu sem þeir bjóða fram og það er eins hjá þeim, þeir hafa mjög takmarkaðan áhuga á að bjóða vöru sem ekki selst.

Páll Ásgeir Ásgeirsson: En nú má skilja grein Steingríms þannig að þetta sé í rauninni breyting sem hafi orðið á síðustu tveimur árum, það er að segja þessi stefnubreyting Áfengisverslunarinnar að leggja áherslu á framlegð frekar heldur en gæði. Þetta er væntanlega rétt hjá Steingrími?
Höskuldur Jónsson: Já en...

Páll Ásgeir: Hver tók þessa ákvörðun?
Höskuldur Jónsson: ... samt er það nú svo að þessi breyting hún er ekkert alveg ný, innkaupareglurnar byggðu á því til skamms tíma að það var magnið sem réði, lítrafjöldinn. Þessi atriði, þessi aðferð þótti óheppileg, það var að sjálfsögðu víntegundir sem seldust í kössum, kassavínið, ljós bjór sem selst í miklu magni, þessar tegundir réðu ferðinni. Og þá kom upp sú kenning að það væri skynsamlegra að láta framlegðina ráða, það er að segja hvaða arði varan skilaði seljandanum frekar heldur en magnið og þetta hefði í för með sér nánast sjálfkrafa að dýr vín þau hefðu þá tækifæri til þess að telja í þessari framlegð því að álagningin á þau væri hærri heldur en aðrar vörur. Þetta reyndist ekki svo, neytendur þeir héldu áfram að greiða kassavínunum og ljósa bjórnum atkvæði sitt og það leiddi til kannski hugsanlegs samdráttar í gæðavínum. Ég nefni samt og ítreka að heildsalarnir eiga greiðan aðgang að hillum okkar og vegna ummæla tveggja í Morgunblaðinu í dag og reyndar einnig vegna þess að fullyrðingar hjá Steingrími að við höfum eiginlega lokað verslun fyrir heildsölum sem selja vilja dýr vín þá kíkti ég í dag á það hvernig staða þessara tveggja sem tjá sig þarna væri. Annar heildsalinn á tvær tegundir hjá okkur sem hann hefur óskað að koma í sölu og hún fer ekki inn af því að hann hefur ekki skilað sýnishornum. Það er ekkert annað sem hindrar það að þessar tvær tegundir komist inn. Hinn heildsalinn á reyndar fjórar tegundir, nei reyndar sex tegundir hjá okkur og þær fara allar inn 1. október. Og þetta er ....

Páll Ásgeir: En þær eru ekki komnar inn?
Höskuldur Jónsson: Þær eru ekki komnar inn, þær fara allar inn 1. október og þetta er svona heildsali sem er raun og veru að taka sín fyrstu skref í viðskiptum. Svo að ég bara botna ekki nokkurn skapaðan hlut í þessum fullyrðingum, hvorki heildsalanna eða Steingríms um þetta aðgangsleysi að hillum ÁTVR.

Snæfríður: Þannig að þú neitar því algjörlega sem er sagt hér í Morgunblaðinu í dag að ÁTVR hafi undanfarið smátt og smátt ýtt gæðavínunum til hliðar?
Höskuldur Jónsson: Alveg svoleiðis, það er ekki glóra í þessu, sko þvert á móti. Þvert á móti, við höfum sett 60 vín á svokallaðan sérlista og það eru vín sem við raunverulega sækjumst eftir, þau eru ekki sérstaklega boðin fram, við sækjumst eftir þeim til þess að koma til móts við þarfir hinna sérstöku vínáhugamanna. Og þessar tegundir komu allar inn í ár.

Páll Ásgeir: Þannig að veit Steingrímur þá ekkert um hvað hann er að tala eða?
Höskuldur Jónsson: Ja ekki að þessu leyti. Ég skal nefna ykkur dæmi.

Páll Ásgeir: En er ekki augljóst af þessum lýsingum þínum á starfsháttum ÁTVR þar sem framlegðin er númer eitt látin ráða ferðinni að þið hafið líklega vitað það núna um nokkurra missera skeið að þið væruð ekki að veita sælkerum góða þjónustu? Höskuldur Jónsson: Sko, hvað er góð þjónusta? Nú skulum við aðeins fara í það mál. Mest selda rauðvínið á flöskum, og við skulum bara tala um rauðvín af því að það er svona tengt kannski meira sælkerunum, og mest selda rauðvínið í flöskum kostar 990 krónur. Þetta er vín sem ég ætla nú ekki að nefna hér en við þekkjum, ég persónulega geri mér þetta vín ágætlega að góðu og bragð þess skemmir ekki á nokkurn hátt matarlyst mína þegar það er borið á borð, þetta er vínið sem hinn venjulegi Íslendingur drekkur.

Páll Ásgeir: Já en ...
Höskuldur Jónsson: Bíðum nú við, ég ætla aðeins að halda áfram. Inni í þessu víni er skattur, áfengisgjald, inni í þessu verði, það er 540 krónur, svo að hið eiginlega vínverð er 450 krónur, já það er 540 krónur skattur og verðið er 450. Þetta er flatur skattur og hann er jafn á allar tegundir af rauðvíni, þannig að þú borgar jafn hátt gjald af jafn sterku rauðvíni sem kostar 3-4 þúsund út úr búð. Ef við segjum gæði og verð haldast í hendur þá er 3 þúsund króna rauðvín um fimm sinnum betra að gæðum heldur en það vín sem venjulegi Íslendingurinn drekkur. Ef að við bara látum okkur nægja að setja á gæðavín að það sé tvöföld þau gæði sem venjulegur maður drekkur þá höfum við um 200 tegundir af rauðvínum sem flokkast undir gæðavín sem kosta allt upp í 74 þúsund krónur flaskan og þessi fjöldi nægir vínáhugamanninum ef hann drekkur ekki meira heldur en eina flösku af nýju víni á dag það sem af er þessu ár. Og ef að við værum nú að leita okkur að úrvali hvað myndi þú óska eftir mörgum tegundum handa þér svona á þessum 200 dögum sem af er árinu?

Páll Ásgeir: Það sem að mér finnst áhugavert í grein Steingríms er það, ég skil það svo að hann telji að ÁTVR hafi vegna einokunaraðstöðu sinnar ákveðnum skyldum að gegna, það er að segja að þið í rauninni megið ekki fara eftir, þó það sé í rauninni falleg hugsun að fólk eigi bara að fá að ráða, að þá beri ÁTVR með einhverjum hætti einhver skylda til þess að sinna þörfum þessa litla horns af markaðnum sem að, eða litla eða stóra eftir atvikum, sem að kýs mjög vönduð vín. Eruð þið ekki að sinna þessum skyldum?
Höskuldur Jónsson: Þetta er alveg hárrétt sjónarmið hjá Steingrími en munurinn er sá....

Páll Ásgeir: En hefur hann rangt fyrir sér þegar hann er að segja að þið sinnið þessu ekki?
Höskuldur Jónsson: En munurinn er sá að við teljum að við sinnum þessum skyldum. Við erum ekki að halda uppi flösku sem kostar 74 þúsund út á annað heldur en að við væntum þess að einhver vínáhugamaður hafi svo sterka þörf fyrir nýjungar að ekki sé ástæða til þess að sinna henni. Heimurinn er fullur af vínum, það eru sennilega 3 milljónir tegunda vína í veröldinni og við komum þeim bara ómögulega inn í vínbúðirnar þannig að þú getur illa gert þá kröfu að þær fáist allar. En fyrir utan þetta safn gæðavöru sem við bjóðum fram þá tekur það einn dag að kaupa út úr þeim lager heildsala sem þeir halda fyrir veitingahúsin, ef að menn eru að leita eftir einhverjum gæðavínum sem fást hér á veitingahúsum en ekki hjá ÁTVR, svo að það eykur, ég hugsa að þú getir drukkið nánast tvær flöskur á dag af gæðavínum ef þú vildir alltaf reyna nýja.

Snæfríður: En af orðum þínum að dæma hérna þá virðist sem sagt hinn venjulegi Íslendingur honum er alveg sama, hann vill bara að vínið kosti þúsundkall?
Höskuldur Jónsson: Nei honum er ekkert sama. Sko mér finnst alveg út úr kortinu, mér finnst það móðgun við íslenska neytendur þegar kemur víndómari fram og skoðar efstu sætin, söluhæstu tegundirnar hjá okkur, og segir þetta ber vott um slæman smekk Íslendinga. Þegar við erum að kaupa vín í Áfengisversluninni, í lang flestum dæmum höfum við keypt vínið áður, við erum að kaupa eitthvað sem við þekkjum og okkur er nákvæmlega sama þótt einhver krítíkari segi þú hefur slæman smekk. Við erum að kaupa samkvæmt okkar eigin reynslu og ég er bara í þessum hópi, ég tel mig bara vera meðal Íslendinginn og mér er nákvæmlega sama þótt einhver komi og segi, þú átt ekki að kaupa flösku sem kostar þúsund krónur þú hefur svo, þetta ber vott um slæman smekk.

Páll Ásgeir: Og alls ekki vín í pappakassa?
Höskuldur Jónsson: Ég skal segja ykkur það að ef við förum í þessi vínræktarlönd sem liggja að Miðjarðarhafinu, Spán, Frakkland, Ítalíu, Grikkland, ég skal veðja við ykkur um það að ef þið spyrjið Frakka um grísk vín þá segja þeir, við drekkum aldrei þann óþverra sem kemur frá Grikklandi. Ef við spyrjum Grikkja um frönsk vín þá eru þau svo flöt og bragðlaus að við lítum ekki við þeim. Þannig að gæði þau eru huglæg, þau eru bara oftast eitthvað sem við höfum sjálf vanist á. Þetta er dæmigert um jólin, sumir vilja bara drekka dökkan bjór og ákveðinn dökkan bjór og ekkert annað og hefur ekkert að gera með það hvort að þessi bjór hefur einhver alheims stimpil sem gæðavara eða ekki, þetta er bara huglægt.

Páll Ásgeir: Þetta er huglægt mat. Og þið eruð greinilega á öndverðum meiði þú og Steingrímur Sigurgeirsson, helsti víngæðingur þjóðarinnar um gæði og þjónustu ÁTVR. Við komumst því miður ekki lengra með þessa umræðu. Höskuldur Jónsson, þú ert ennþá forstjóri ÁTVR, þakka þér fyrir.
Höskuldur Jónsson: Þakka ykkur fyrir.