Úr grein í Vínblaðinu (ágúst 2007)
Það er forvitnilegt að skoða hver þróunin hefur orðið í sölu á áfengum drykkjum á Íslandi undanfarin ár. Þar er mesta breytingin í neyslumynstrinu að verða í neyslu bjórs. Sala hans hefur aukist jafnt og þétt síðustu árin, en aukningin milli áranna 2005 og 2006 var til dæmis um 8%.
Sala á rauðvíni hefur einnig verið að aukast gríðarlega á undanförnum árum og sala hvítvíns hefur aukist um hálfa milljón lítra á ári frá árinu 1998.
Á þessum sama tíma hefur sala á brenndum áfengum drykkjum verið að dragast saman í heildina. Vodka, Gin, Koníak, Viskí og margskonar snafsar hafa dalað í sölu á meðan bjórinn og léttvínin hafa verið að ná sífellt meiri sölu. Á síðasta ári var skipting sölunnar hjá vínbúðunum þannig að bjórinn var 78% af sölunni, léttvín og styrkt voru 18,13% og því það sterka eða brennda einungis um 3,83% af heildarsölu ÁTVR í lítrum talið.