ÁTVR hefur valið listamann ársins 2004. Það er Þorlákur Kristinsson - Tolli.
Tolli mun sýna verk sín í tólf vínbúðum árið 2004 og munu öll verkin vera komin upp í apríl. Þetta er í fyrsta sinn sem listamaður ársins er útnefndur hjá fyrirtækinu og mun ÁTVR kynna listamann ársins, Tolla, á vinbud.is og í sýningarskrá sem kemur út í byrjun ársins 2004.
Myndirnar í vínbúðunum ná vel til almennings og viðskiptavinum búðanna gefst kostur á að njóta og kynnast list um leið og verslað er.
Náttúran til fólksins
Fólkið til náttúrunnar
Nýbylgjan í íslenskri málaralist sem snýr að náttúru-stemmum er ekki gömul. Myndasmiðurinn Tolli er einn þeirra sem hafa lagt þar fram nokkuð stóran skerf. Umdeildur? Kannski. Virtur? Vafalítið. Vinsæll? Vissulega. Hann býr til öflugar eða blíðar myndir, kaldhamraðar eða hlýlegar, dreymnar eða ofsafengnar eins og tilfinningarnar blása honum í brjóst enda maður meiri öfga en margir aðrir; ekki stjórnlausra, heldur agaðra. Hann drekkur í sig umhverfið af næmni þess sem hefur séð tímana tvenna en er rótfastur í nútímanum og endurskapar töfraheim sem sumir geta séð í eitthvað sem þeir þekkja en aðrir bara ókunna en forvitnilega stigu.
Tolli stendur á fimmtugu og stundaði myndlistarnám hér heima og í Berlín. Hann hefur rekið vinnustofur á Íslandi og í Berlín og mun brátt hefjast handa í Kaupmannahöfn. Hann hélt þrjár einkasýningar hér á landi 2003 og tvær erlendis, í Mónakó og London og fleiri eru í undirbúningi.
Tolli segir um verk sín
„Listamenn komast ekki langt frá náttúrunni. Það eru einhver yfirskilvitleg öfl sem hafa þessi áhrif á okkur sem vinnum við myndlist. Þau okkar sem fara til útlanda skera á naflastrenginn en þá verður bara til nýr farvegur fyrir túlkun á íslenskri náttúru. Hún er föst í sinni og hjarta flestra... Íslensk myndlist hefur fram á þennan dag verið bundin áhrifum frá landinu ekki bara fjöllum og firnindum heldur líka birtuni, en það er hin síbreytilega birta sem er á bak við töfra þessa lands.“
(úr bókinni YZT, 2003)