Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Heitara loftslag hefur áhrif á vínframleiðslu

17.11.2003

Víngerð er mjög háð veðurfari eins og sjálfsagt flestir vita.  Árgangar  vína ráðast af því hvernig veðrið var sumarið sem vínberin þroskuðust áður en þeim var breytt í vín. Og æfðir vínsmakkarar geta jafnvel greint veðurfar árgangsins á bragðinu.

Hitastig á jörðinni hefur farið hækkandi undanfarin fimmtíu ár - talið er að það hafi jafnvel hækkað um 2° á síðustu öld og segja vínsérfræðingar að haldi þessi hitahækkun áfram muni það hafa veruleg áhrif á vínræktarsvæðin.

Gerð hefur verið rannsókn af áhrifum hækkandi hitastigs á gæði víns af 27 vínræktarsvæðunum undanfarin 50 ár og kom í ljós að þessir þættir hafi haft veruleg áhrif á vínið. Ef sama þróun heldur áfram munu kaldari vínrækarsvæði gefa af sér jafnvel betri framleiðslu en verið hefur, en erfiðara verður að rækta á heitustu svæðunum. Þetta þýðir að framleiðendur verða að vera tilbúnir að aðlaga sig breytingunum sem kunna að verða á næstu tugum ára. Sum vínræktarsvæði hafa gefið af sér nafnkunnar þrúgur jafnvel um aldir og rík menningarhefð skapast í sumum héruðum í kringum ákveðnar víntegundir. Skilyrðin gætu breyst svo að vínbændur gætu þurft að breyta um ræktunaraðferðir eða jafnvel um þrúgutegundir til að aðlaga sig veðurfarsbreytingunum.

Heimild: Berry Bros & Rudd - bbr.com