Sleppa valmynd og fara beint í meginmál
Forstjóraskipti hjá ÁTVR til eins árs

Forstjóraskipti hjá ÁTVR til eins árs

05.06.2003

Höskuldur Jónsson forstjóri ÁTVR er farinn í árs námsleyfi frá 1. júní  og er Ívar J. Arndal settur forstjóri á meðan Höskuldur er í leyfi.

Höskuldur segist ætla nota leyfið til að tvinna saman störf og áhugamál.
„Augljóst er að að taka leyfis á 67. aldursári er ekki til stórkostlegra framtíðarnota fyrir fyrirtækið, en ég mun m.a. verja leyfinu til að styrkja þau samskipti sem fyrirtækið verður að hafa við birgja sína. Gildir það jafnt um birgja áfengis sem tóbaks. Ég mun því haga þessu námsleyfi að hluta til að skoða framleiðslustaði og verkunarhætti áfengis og tóbaks. Ég fer til dæmis til Ítalíu í júní að heimsækja vínframleiðendur sem við höfum átt samskipti við áratugum saman. Á þeim 17 árum sem ég hef verið hjá ÁTVR hefur talist til undantekninga að ég hafi farið í kynnisferðir af þessum toga. Ég mun nota leyfið einnig til að bæta um fyrir sjálfum mér, t.d. bæta þekkingu mína á tungumálum,“ segir Höskuldur.


Höskuldur ætlar m.a. að ganga upp á hæsta fjall Afríku, Kilimanjaro (5895 m) sem liggur á mörkum Kenyu og Tansaníu. Hann leggur í þá ferð í september. Hann vill þó ekki hafa stór orð um þá göngu fyrirfram og segir það koma í ljós hvort takist að komast á tindinn því að líkamlegt form ráði ekki einungis um það. Súrefni þynnist mjög eftir því sem ofar dregur og þol sitt við loftþynningu sé óþekkt. Það ráði mestu um það hvort fólk komist alla leið upp. Höskuldur hefur ágæta reynslu í að ganga á fjöll enda virkur Ferðafélagsmaður til fjölda ára. Hann er því í góðu formi til að komast á tindinn.


Mynd: Höskuldur rýmir forstjóraskrifstofuna fyrir Ívari J. Arndal sem tekur við honum í eitt ár.