Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Ný vínbúð í Þorlákshöfn

15.05.2003

Ný vínbúð í ÞorlákshöfnÁTVR opnar nýja vínbúð í dag, 15. maí, í ESSO aðföngum við Óseyrarbraut 4 í Þorlákshöfn.

Þetta er 41. vínbúð ÁTVR og býður  80 áfengistegundir. Hún verður opin frá mánudögum til fimmtudaga kl. 17-18 og föstudaga kl. 16-18. Brynjólfur Guðmundsson er verslunarstjóri vínbúðarinnar. Á Þorlákshöfn búa rúmlega 1200 manns og u.þ.b. 200 að auki á bæjunum í nágrenninu sem vínbúðin þjónustar.

ÁTVR hélt kynningu í tilefni opnunarinnar í Þorlákshöfn í gærkvöldi og mættu um 70 manns til að skoða húsnæði verslunarinnar.

Höskuldur Jónsson, forstjóri hélt tölu áður en hann afhenti Brynjólfi Guðmundssyni, verslunarstjóra lyklana. Hann minnti á það að Þorlákshöfn héti eftir Þorláki helga, dýrðlingi, en hann var sérstakur áhugamaður um öl og ölgerð. Það væri því vel við hæfi að opna vínbúð í Þorlákshöfn.

Að svo búnu tók Ólafur Áki Ragnarsson bæjarstjóri til máls, þá Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og sr. Baldur Kristjánsson sóknarprestur Þorlákshafnar. Þeir gerðu það að umtalsefni hversu viðhorf til áfengiskaupa hefur breyst á undanförnum árum.

Mikill undirbúningur hefur staðið yfir síðustu vikurnar síðan Olíufélagið hf. skrifaði undir samstarfssamning við ÁTVR í mars sl. og hafa starfsmenn beggja aðila haft í nógu að snúast síðan um páska til að hafa allt klappað og klárt fyrir opnunina í dag.

ÁTVR óskar Þorlákshafnarbúum til hamingju með nýju vínbúðina.