Poppstjörnur og önnur stórstirni hafa nú tekið upp á því að kaupa vínekrur á helstu vínsvæðum heimsins og spreyta sig á víngerð. Þetta mun vera vaxandi tíska í stjörnuheiminum. Meðal þeirra sem hafa keypt víngarða eru Sting, en hann keypti 180 hektara jörð í Toscana á Ítalíu, en þar hefur hann einnig upptökuver. Um 40 hektara Chianti vínekra fylgir og ætlar Sting að framleiða rauðvín af Sangiovesi gerð. Hann ætlar sér þó ekki að selja vínið heldur drekka það sjálfur ásamt vinum sínum og vandamönnum. Þá hefur Mick Hucknall, söngvari Simply Red keypt 100 hektara vínekru í fjallshlíðum Etnu á Sikiley. Sir Cliff Richard bjó til sitt eigið vín af vínekru sinni í Portúgal í fyrra og leikararnir Sam Neill og Gerard Depardieu eiga vínekrur á Nýja Sjálandi og í Frakklandi. Nú er spurning hvort "stjörnuvín" smakkist öðruvísi en venjuleg vín?