Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vín 2004

30.01.2004

Vín 2004 var haldin með miklum glæsibrag á hótel Loftleiðum helgina 24. og 25. janúar sl. Vínþjónasamtökin stóðu fyrir sýningunni í samvinnu við níu birgja sem kynntu í kringum 150 víntegundir, auk þess kynnti Osta- og smjörsalan, Ostabúðin, Sandholt bakarí og Mosfellsbakarí vörur sínar. Gestir sýningarinnar röltu á milli bása og brögðuðu það sem þar var í boði og nutu þess að fá sér ostbita eða konfektmola til að bragða með vínunum.
ÁTVR var með bás á sýningunni þar sem þjónusta vínbúða var kynnt.
Sigurður Bjarkason, formaður vínþjónasamtaka sagði að allir sem stóðu að vínsýningunni hefðu verið ákaflega ánægðir með árangurinn. 700 manns sóttu sýninguna, en það er tæplega þrisvar sinnum fleiri en komu á Vín 2003 sem var haldin í fyrsta skipti í fyrra. Á sunnudeginum héldu Þorri Hringsson, Einar Thoroddsen og Stephane Oudar frá Bourgogne héraði í Frakklandi fyrirlestra sem voru mjög vel sóttir, á laugardeginum var haldin vínþjóna keppnin og bar Sævar Már Sveinsson þjónn á Hótel Holti sigur úr bítum í annað sinn og hlaut nafnbótina Vínþjónn ársins 2004. Sigurður segir að Vínsýningin sé komin til að vera og þegar sé farið að leggja drög að Vín 2005 á næsta ári.