Áfengissala hér á landi var um 19,2 millj. lítrar árið 2003 á móti 18,6 millj. lítra árið 2002. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands www.hagstofa.is og í nýrri ritröð Hagtíðinda árið 2004. Fjallað er um áfengisneyslu á árinu 2003, þróun í áfengisneyslu síðustu 15 árin og breyttar neysluvenjur.
Aukningin er um 3,2%. Talið í alkóhóllítrum er aukningin hlutfallslega ekki eins mikil, eða 0,9% milli ára, úr 1.445 þús. alkóhóllítrum árið 2002 í 1.458 þús. alkóhóllítra árið 2003. Reiknað á hvern íbúa 15 ára og eldri, nam salan 6,52 alkóhóllítrum og minnkaði eilítið frá árinu áður þannig talið, en í lítrum talið jókst hún um rétt rúmlega 2%, eða úr 84,19 lítrum á hvern íbúa 15 ára og eldri í 86,07 lítra. Aukning milli áranna 2002 og 2003 er minni en aukning milli ára á undanförnum árum.