Stjórn ÁTVR samþykkti nú í mars nýja heildarstefnu fyrir fyrirtækið. Nýrri stefnu er ætlað að tryggja áframhaldandi þróun úr afgreiðslustofnun yfir í þjónustufyrirtæki, þar sem áhersla er lögð á að auka ánægju viðskiptavina með fyrsta flokks þjónustu ásamt kynningu og fræðslu.
Samkvæmt nýju heildarstefnunni er hlutverk ÁTVR eftirfarandi:
ÁTVR annast sölu á áfengi og tóbaki fyrir hönd ríkisins á Íslandi. Til þess að geta rækt þetta hlutverk í sem mestri sátt við alla aðila markaðarins hefur stjórn ÁTVR samþykkt eftirfarandi leiðarljós og stefnu fyrir fyrirtækið.
ÁTVR hefur eftirfarandi að leiðarljósi:
ÁTVR vill stuðla að ábyrgri neyslu áfengis með áherslu á tengsl matar og áfengra drykkja.
Stefna ÁTVR er:
ÁTVR er framsækið og ábyrgt fyrirtæki sem leggur áherslu á að veita öllum viðskiptavinum sínum góða þjónustu, stuðla að jákvæðri vínmenningu og draga úr neyslu tóbaks.
Stefnumið nýju heildarstefnunnar eru:
Við gerum viðskiptavini okkar ánægðari
Við byggjum upp þjónustu okkar með þarfir hinna ólíku viðskiptavina í huga. Við viljum að viðskiptavinum okkar þyki gaman að versla í vínbúðunum og líti á það sem fræðandi upplifun. Þjónusta vínbúðanna byggist á hvatningu til að njóta áhugaverðrar tengingar matar og vína. Þarfir viðskiptavina séu hafðar í fyrirrúmi og boðið verði upp á námskeið og kynningar sem geri leiðarljósið að veruleika.
Við erum samfélagslega ábyrg
Við virðum að fullu reglur við sölu á áfengi og tóbaki. Við stuðlum að ábyrgri áfengisneyslu og umgengni við áfengi, öllum til ánægju.
Við rekum ÁTVR á hagkvæman hátt
Við höfum hagkvæmni að leiðarljósi þegar við lögum okkur að þörfum markaðarins. Þannig aukum við virði fyrirtækisins um leið og við stöndum skil á greiðslum í ríkissjóð.
Við gerum starfsmenn okkar ánægðari
Við búum þeim skapandi og lifandi starfsumhverfi sem virkjar þann kraft sem býr í þeim og laðar til okkar hæft fólk sem býr yfir frumkvæði og þjónustulund.
Við eflum samstarf við birgja
Við eflum tengsl við birgja og vinnum með þeim að framsetningu í vínbúðum, kynningum og fræðslu til viðskiptavina og starfsmanna. Samskipti við birgja byggja á gagnsæi, gagnkvæmu trausti og hlutleysi.
Við tryggjum öflugt gæðastarf
Við eflum vitund starfsmanna okkar og birgja um framúrskarandi þjónustu og vörumeðferð. Við tökum virkan þátt í vistvænum búskap og stuðlum þannig að sjálfbærri þróun.
Þrjár megináherslur ÁTVR endurspeglast í fyrstu þremur stefnumiðunum. Ánægja viðskiptavina, samfélagsleg ábyrgð og hagkvæmni í rekstri. Þessar áherslur snerta samfélagið, viðskiptavini og eiganda.
Innri áherslur endurspeglast síðan í þremur seinni stefnumiðunum og snerta innra starf fyrirtækisins, ánægju og hæfni starfsfólks, samstarf við birgja og öflugt gæðastarf.
Með aukinni fræðslu til starfsfólks, m.a. með stofnun vínskóla sem nú þegar hefur tekið til starfa, ásamt öflugra kynningarstarfi stefnum við á að gera starfsfólk okkar hæfara til að mæta kröfum viðskiptavinarins og um leið stuðla að ánægjulegri upplifun hans í vínbúðunum.
Viðskiptavinir ÁTVR verða á næstu mánuðum varir við áherslubreytingar í rekstrinum og má í því sambandi nefna að kynning á vínum frá Ítalíu mun hefjast eftir miðjan apríl.