Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Láttu vefinn auðvelda þér leitina

13.03.2003

(ATH þessi frétt tengist eldra vefkerfi ÁTVR)

...að í vinbud.is er hægt að finna allar tegundir sem Vínbúðir ÁTVR hafa upp á að bjóða? Og ekki nóg með það, heldur er hægt að leita að vínum sem fara vel með steikinni, humrinum og við flest annað sem kemur upp í hugann. Vefurinn getur mælt með ákveðnum vínum sem fara vel með flestum mat og einnig sagt þér hvar flaskan fæst.

Ef þú ert að undirbúa veislu í kvöld og býrð t.d. á Akureyri, þá geturðu farið á vinbud.is, valið vörulista og þá opnast kosturinn leit. Á leitarsíðunni geturðu valið um verðbil vínsins og fæðuflokkinn sem þú vilt að vínið passi við, t.d. skelfisk eða kjöt. Þú getur kosið vín frá ákveðnu landi, t.d. Frakklandi eða Ástralíu og loks velurðu þá vínbúð sem þú átt leið hjá, t.d. í þessu tilfelli yrði vínbúð á Akureyri fyrir valinu. Það má þrengja leitina með því að leita eftir uppáhalds berjategundinni, t.d. Chardonnay eða Shiraz, eða sleppa því og fá þannig meira úrval.

Séu ekki gerðar sérstakar kröfur um land eða berjategund, heldur leitað eftir upplýsingum um þau vín sem fara vel með t.d. nautakjöti, þá er hægt að velja aðeins kostinn Naut og vali á landi eða verslun sleppt og jafnvel engin mörk höfð á verði. Þá færðu víðtækustu leitina. Upp kemur 141 víntegund sem fer vel með nautakjöti ásamt ítarlegri upplýsingum eins og verði, táknum um þá fæðuflokka sem vínið passar best með, hvort sé gott að geyma vínið eða drekka strax og svo framvegis.

Flestar tegundir er unnt að panta hér á vinbud.is en sé það ekki hægt er það tekið sérstaklega fram. Þegar þú hefur valið þá tegund sem þér líst best á kemur upp mynd af flöskunni ásamt nánari upplýsingum. Þá er hægt að panta flöskuna á netinu eða athuga hvar hún fæst með því að velja kostinn birta hvar varan fæst.

Nú er um að gera að prófa sig áfram og fá smjörþefinn af hinu mikla vínúrvali sem Vínbúðirnar hafa að geyma.