Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Nýtt í Vínbúðinni – upplýsingarit um áfengistegundir

03.10.2002

Nýtt í Vínbúðinni – upplýsingarit um áfengistegundir í reynslusölu og sérlista gefið út í fyrsta sinn

ÁTVR hefur gefið út fyrsta hefti af nýju upplýsingariti um áfengistegundir sem eru í reynslusölu og á sérlista. Upplýsingaritið nefnist „Nýtt í vínbúðinni" og liggur frammi í vínbúðum um allt land, viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

„Nýtt í vínbúðinni" hefur ekki aðeins að geyma upplýsingar um nýjar tegundir í sölu í vínbúðum, heldur einnig margvíslegan fróðleik um vín og vínmenningu. Þar á meðal má nefna grein eftir Einar Thoroddsen um vínsmökkun, en Einar verður fastur pistlahöfundur ritsins. Áætlað er að „Nýtt í vínbúðinni" komi út sex sinnum á ári. Ritið er 28 blaðsíður og prentað í 10 þúsund eintökum.

Í upplýsingaritinu eru kynntar til sögunnar þær tegundir sem eru í reynslusölu og á sérlista. Með reynslusölu er verið að meta hvort ástæða sé til að bjóða viðkomandi vöru í kjarnasölu vínbúðanna. Sérlistavörur eru tegundir sem ætlað er að auka fjölbreytni í vöruvali vínbúðanna.

Í ritinu kemur fram hjá Höskuldi Jónssyni, forstjóra ÁTVR, að árlega hafi um 2.200 sölutegundir viðkomu í stærstu vínbúðunum. Með útgáfu ritsins sé ætlunin að miðla upplýsingum um nýjungar ásamt ábendingum um það hvaða matur fellur að víninu.

Höskuldur segir ennfremur að ÁTVR fagni 80 ára afmæli á þessu ári og alls hafi 40 vínbúðir verið opnaðar. Þar með hafi flestir landsmenn stutt að sækja í vínbúð en þeir sem búa fjarri vínbúð geta fengið vöruna senda heim án endurgjalds. Þannig er sama gjald fyrir vínið óháð búsetu viðskiptavina.

Með hverri víntegund í „Nýtt í vínbúðinni" er getið um framleiðanda og upprunastað. Upplýsingar eru veittar um megineinkenni vínsins, verð, sykurinnihald og magn vínanda. Þá er einnig bent á þann mat sem vínið hentar einna helst með.

Hugmyndin að „Nýtt í vínbúðinni" er sótt til Norðurlanda, en norrænu einkasölurnar hafa lengi gefið út sambærileg upplýsingarit. ÁTVR sinnir lögbundnu þjónustuhlutverki sínu m.a. með því að veita viðskiptavinum sínum upplýsingar um þá vöru sem verslunin býður til sölu.