Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Áströlsk vín fara sigurför um heiminn

30.09.2002

30.9.2002 12:24
Áströlsk vín fara sigurför um heiminn
 
Um þessar mundir stendur yfir sérstök kynning á áströlskum vínum í vínbúðinni Heiðrúnu, Stuðlahálsi og vínbúðinni Kringlunni.

Það kemur mörgum á óvart hvað Ástralía framleiðir lítið magn af vínum miðað við hvað landið hefur haft mikil áhrif á víngerð síðustu tveggja áratuga. Það er sem stendur í ellefta sæti heimslistans og framleiðir t.d. einungis um einn fimmtánda af því sem Ítalía framleiðir. Stærstu víngerðarfyrirtæki heims, eins og t.d. Peñaflor í Argentínu og Gallo í Kaliforníu, framleiða hvor um sig meira vín en kemur frá allri Ástralíu.

Ástralía er minnsta heimsálfan, austan og sunnan við meginland Asíu og á stærð við Norður-Ameríku, svo erfitt er að alhæfa um veðráttu og skilyrði til vínræktar. Í stuttu máli má þó segja að megnið af vínræktinni sé bundið við suð-austanvert landið þar sem veðráttan er árstíðarbundin og svipar að einhverju leyti til heitasta hluta Kaliforníu. Megnið af úrkomunni fellur yfir vetrarmánuðina en ræktunartíminn er sólríkur, heitur og þurr. Hiti og vatnsskortur eru hins vegar það sem helst ógnar uppskerunni. Lítið um fjalllendi í Ástralíu suðaustanverðri og sjórinn hefur ekki eins temprandi áhrif og t.d. í Suður-Ameríku. Allstaðar er leyft að vökva vínviðinn enda væri nánast útilokað að rækta vínvið í Ástralíu þar ef það væri bannað.

Vínviður var fluttur til Ástralíu frá Suður-Afríku árið 1788 og breiddist vínrækt hratt út um fylkin Nýju Suður Wales, Viktoríu og Suður-Ástralíu, sem enn þann dag í dag eru helstu uppsprettur gæðavína.

 Af rauðum þrúgum er mest ræktað af Shiraz, sem er sama þrúgan og kallast í Frakklandi Syrah, og þótt hún eigi sér langa sögu í Ástralíu er það ekki fyrr en á allra síðustu áratugum að víngerðarmenn fóru að vanda verulega til víngerðar með Shiraz. Cabernet Sauvignon er nú ræktuð á sífellt stærra svæði og er framleiðslan farin að nálgast Shiraz. Hún hefur, eins og hvarvetna annarstaðar á jarðkringlunni, greinileg sérkenni og er bæði góð ein og sér og til blöndunar með Shiraz og nú á síðari árum, einnig með Merlot og Cabernet Franc, en ræktun á þessum hefðbundnu Bordeaux þrúgum hefur sótt mikið í sig veðrið. Einnig er ræktað töluvert af Grenache og Pinot Noir en mikið af þeirri síðastnefndu fer í ástralska freyðivínsgerð, sem á sér langa sögu.

Af hvítum þrúgum er Chardonnay þrúgan mest ræktuð en hún virðist allstaðar gefa af sér góð vín. Mörgum kemur á óvart að önnur mest ræktaða þrúgan til víngerðar er Riesling sem nýtur mikilla vinsælda í Ástralíu sjálfri, og er minna flutt út af því víni en t.d. Chardonnay. Einnig eru Semillon og Colombard ræktaðar í all miklu magni.


Nýja Suður Wales er elsta og jafnframt heitasta fylkið. Þar eru Hunter Valley og Mudgee, rétt norðan við Sydney, líklega frægustu víngerðarsvæðin.  Viktoría var áður mesta vínræktarfylkið en er nú komið niður í þriðja sætið.  Allar stærstu víngerðir Ástralíu eiga bæði lönd og víngerðir í Nýja Suður Wales en þekktust er líklega Seppelt víngerðin í Great Western. Í Nýju Suður Wales er Lindemans einnig með sína stærstu víngerð og framleiðir þar m.a. hið þekkta Bin 65 Chardonnay. Suður Ástralía er stærsta og jafnfram mikilvægasta víngerðarfylkið og framleiðir bæði mikið af ódýru magnvíni auk eftirsóttustu hágæðavína Ástralíu. Þekktustu vínræktarsvæðin eru kringum borgina Adelaide og má þar nefna t.d. Barossa Valley, McLaren Vale, Coonawarra og Padthaway þar sem margir vilja meina að bestu vín Ástralíu úr Chardonnay og Cabernet Sauvignon séu gerð. Vestur Ástralía er stærsta fylkið og víngerð á vesturströndinni í töluverðri sókn.  Mest áberandi þaðan eru vín frá Margaret River svæðinu þar sem Cape Mentelle víngerðin er þekktust en Great Southern víngerðarsvæðið er einnig á mikilli uppleið.

Fyrirtækið Southcorp í Suður Ástralíu ber höfuð og herðar yfir önnur í Ástralíu en það á m.a. víngerðirnar Penfolds, Lindemans, Rosemount, Seppelt, Seaview og Wynns svo einhverjar séu nefndar. Önnur þekkt fyrirtæki eru t.d. Mildara Blass sem hefur nýlega sameinast hinu kaliforníska Beringer og er núna einnig kennt við það, Orlando, sem selur þekktasta vörumerki Ástralíu, Jacob's Creek og BRL Hardy, sem er næst stærsta víngerð Ástralíu sem stendur.

Þegar litið er til baka er ljóst að áströlsk víngerð hefur haft áhrif á heiminn langt umfram magnið sem þar er framleitt. Ræktendur þar hafa verið í fararbroddi við nútímalegar aðferðir við meðferð vínviðarins t.d. vökvun, hvernig hann er klipptur til og umhirðu víngarða. Ástralskir víngerðarmenn hafa rutt brautina fyrir margar nýjar aðferðir við víngerð, t.d. næturuppskeru, kælingu á vínberjum og almennan þrifnað. Það er þó líklega vínstíllinn sem neytendur verða hvað mest varir við en á sínum tíma gjörbyltu ástralski víngerðarmenn vínheiminum með sínum opnu, ávaxtaríku og neytendavænu vínum sem hafa farið sigurför um heiminn.

© Gestgjafinn