Samtök verslunar og þjónustu - SVÞ - dreifa þessa dagana riti til stuðnings því að léttvín og bjór verði seldur í verslunum og bensínstöðvum. Ekkert er við að athuga þótt sú krafa sé höfð uppi af þeim hagsmunasamtökum sem hér eiga hlut að máli. Við rök þeirra fyrir kröfunni má þó gera ýmsar athugasemdir.
Í ritinu er eingöngu fjallað um léttvín og bjór. Það er óábyrgur málflutningur að sleppa umfjöllun um hvernig dreifa skuli sterku áfengi. Af sölu ÁTVR er 92% léttvín og bjór, sem nú er dreift á jafnaðarverði frá 40 vínbúðum víðsvegar um land. Aðeins 8% sölunnar er sterkt áfengi. Sú sala dugar til að reka 1 eða 2 verslanir á öllu landinu, sem seldu eingöngu sterkt áfengi. Hver á að reka þær? Hvar verða þær staðsettar?
Í mars á þessu ári birti Áfengis- og vímuvarnarráð niðurstöðu könnunar um viðhorf almennings til áfengisverslunar. Úrtakið var 4000 einstaklingar 18 ára og eldri. Þar kemur fram að einungis 10,7% vildi að sterk vín verði seld í matvöruverslunum en 50,7 % þátttakenda vildi fá vín og bjór í þessum verslunum. Athygli vekur að fólk sem ekki hefur aldur til að kaupa áfengi þ.e. 18 og 19 ára var í hópnum. Auðvelt er að geta sér til um afstöðu þess aldurshóps. Véfengja má réttmæti þess að spyrja þann, sem skv. lögum má ekki kaupa áfengi, hvar eigi að selja það. Upplýsingar Áfengis- og vímuefnaráðs eru þó miklu traustari en þær, sem SVÞ birtir í riti sínu. Þar segir að "67% Íslendinga"- börn væntanlega meðtalin -séu fylgjandi sölu víns og bjórs í matvöruverslunum.
ÁTVR minnist 80 ára afmælis síns á þessu ári. Í riti SVÞ er talið að afnám einkasölunnar muni lífga "kaupmanninn á horninu" við. Þess verður ekki minnst að fyrr hafi verið látið í það skína, að Áfengis- og tóbaksverslunin sé ábyrg fyrir lífi eða dauða "kaupmannsins á horninu". Satt að segja eru aðeins 15 ár síðan farið var að hafa áhyggjur af líðan "kaupmannsins á horninu". Þá hafði góð sambúð kaupmannsins og ÁTVR staðið í 65 ár. SVÞ ætti að kanna vel í eigin hóp, hvort þar leynist eigi þeir, sem gerðu út af við "kaupmanninn á horninu". Það eru aðrir en ÁTVR sem stýra þróun matvöruverslunar í landinu.
Höskuldur Jónsson